Nýju fötin keisarans

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1959
Flokkur: 

Safn af skrifum Sigurðar um rithöfunda og bókmenntir.

Úr inngangi höfundar:

Greinarnar sem hér er safnað saman á einn stað eru tilkomnar af ólíkum tilefnum og undir sýmsum kringumstæðum. Að sjálfsögðu spegla þær ekki allar sömu viðhorf, enda taka þær yfir tæpan áratug á umbrotatímum. Hinsvegar fnnst mér sjónarmiðin sem fram koma vera í fullu gildi.

Greinarnar hafa flestar birzt áður, meginhluti þeirra í Morgunblaðinu, en aðrar í Félagsbréfum, Stefni og Árbók 58. Fyrsta greinin er útvarpserindi. Viðtalið á dönsku birtist í Det unge Köbenhavn og greinarnar á ensku um nútímaljóðlist og Laxness í The American-Scandinavian Review, sú síðarnefnda í nokkuð breyttu formi. Yfirleitt hef ég látið greinarnar halda sér eins og þær voru prentaðar í upphafi, nema vikið til einstaka orði þarsem mér fannst fara betur á því. Lesandinn mun rekast á svipaðar hugsanir í nokkrum greinanna og er þá beðinn að hafa hugfast að þær voru í öndverðu samdar sem sjálfstæðar heildir, og ekki til þess ætlazt þá að þær kæmu saman í bók.

Ég hef valið bókinni hið fræga nafn á ævintýri H. C. Andersens vegna þess að hér er fjallað um efni sem menn eru ekki allént á eitt sáttir um. Skáldskapur er ævinlega umdeild iðja, og skáldskapur þessarar aldar er það sérílagi. Þarsem ég og mínir líkar sjá glæstan vefnað og velunninnn sjá aðrir hvorki tangur né tetur. Það verður að ráðast hvort lesari þessara greina sér ekkert nema ,,berstrípaðan keisarann í samtímabókmenntum, en hér er semsagt gerð tilraun til að skýra frá nokkru af því sem mesta athygli hefur vakið í skáldskap og öðrum listum útí heimi. Slík viðkynning glæðir vonandi áhuga eða skilning einhverra á því sem ungir menn á Íslandi eru að leitast við að gera og segja.

Síðan ég byrjaði að skrifa um bækur að staðaldri í Morgunblaðið í desember í fyrra hef ég birt um sextíu bókadóma. Af eðlilegum ástæðum taka þeir aðeins til lítils hluta þeirra bóka sem út komu á tímabilinu. Ég hef valið í þessa bók dóma um nokkur beztu verkin sem ég las á þessu rúma ári, en auðvitað fóru mörg góð verk framhjá mér. Það er með ritdóma einsog önnur mannanna verk, að oft er maður milli vonar og ótta um hvort tekizt hafi að segja það sem máli skipti. Ég birti þessa bókadóma á ný í þeirri trú að þar hafi ég komizt eins nærri því og mér var unnt að segja það sem mér bjó í brjósti