Nóttin lifnar við

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Nóttin lifnar við:

„Við höldum auðvitað hópinn,“ sagði hann og togaði í rennilásinn á úlpunni. „Sævar verður með luktina og við eltum hann. Er það ekki?“ Stelpurnar kinkuðu kolli og síðan fikruðu þau sig niður að hellismunanum. Það var augljóst að einhver ólga lá í loftinu. Enginn þorði að hætta við þótt öll hefðu verið til í það. Líklega. „Það er skítakuldi þarna inni,“ sagði Sævar og lyfti upp luktinni áður en hann lagði í hann. Andrea fylgdi honum eftir, síðan Manuela og Gabríel rak lestina þegar hann hafði hnýtt spottann utan um traustan hraundrang. Ónotakennd hríslaðist um hann þegar hann beygði sig inn í ískyggilegt myrkrið. Honum varð hugsað til Axlar-Björns og þess fjölda sem hefði horfið á svæðinu. Enginn hefði getað talið honum trú um að hellirinn væri laus við reimleika. Gabríel lá við yfirliði þegar hann var sviptur birtunni og því frelsi að hafa víðáttu allt í kringum sig. Loftið var mettað af löngu liðnum atburðum. Hann dauðlangaði að flýja af hólmi og taka sprettinn heim að Búðum. Og sitja límdur við eldhúsborðið uns rútan flytti hann beinustu leið í bæinn. Hann ætlaði að segja Sævari að bíða en kom ekki upp orði. Hann starði bara fram fyrir sig og gætti þess að eiga örugga fótfestu. Honum fannst ískalt myrkrið læðast niður hálsmálið, upp buxnaskálmarnar og umvefja sig ólýsanlegum hryllingi. Þegar hann var kominn upp að Manuelu greip hann í hana. Hún kipptist við. Hann reyndi að einbeita sér að því að gefa eftir af snærinu og óskaði þess að það væri helmingi styttra en Gulla hafði álitið. Hann sá eftir því að hafa ekki vafið því nokkra hringi í kringum hraundrangann. Rétt innan við munann var lítið rými en dágóð hvelfing aðeins innar. Sævar lyfti luktinni eftir þörfum en hún gerði ekki meira en að lýsa nokkra metra umhverfis hann. Hin þrjú reyndu að halda sig í birtunni. Hellirinn var illur yfirferðar enda hrein náttúrusmíð. Litbrigðin báru þess merki að víða hafði hrunið úr loftinu. Sævar ýmist malaði eða tók andköf til að leyna óttanum og kyngdi stöðugt. Gabríel fann fyrir loftleysi og gæsahúðin virtist komin til að vera. Honum fannst hjartsláttur þeirra allra bergmála í höfðinu á sér. Hann langaði að hafa augun lokuð og hanga eingöngu í Manuelu. Honum fannst meiri ógnun stafa af myrkrinu sem við honum blasti en því sem birtist þegar hann lokaði augunum. Það var hlýtt og þar leyndist ekkert nema hans eigin ímyndanir. Hann átti reyndar erfitt með að hafa hemil á þeim undir þessum kringumstæðum. Snærið átti hug hans allan. Í hverju skrefi bjóst hann við að einhver myndi kippa í það og draga það úr höndum hans án þess að hann gæti komið nokkrum vörnum við.

(s. 144-145)