Nóttin hefur þúsund augu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Fyrsta bókin um Einar blaðamann.

Úr Nóttin hefur þúsund augu:

2

Eins dauði er sjálfsagt annars brauð, jafnvel annars líf. Þegar ég stekk upp stigann á Síðdegisblaðinu tek ég þrjár tröppur í einu eins og ég hafi á ný fundið tilgang í lífinu; höfuðverkur, ógleði og þorsti hafa vikið fyrir sannri lífshamingju og eru það viðunandi skipti. Klukkan er rétt að verða níu. Ég hef tíu mínútur-kortér til að koma fréttinni frá mér. Eins dauði er líka annars deadline.
Rauða Lóló er í símamóttökunni á ritstjórninni á annarri hæð. Hún er í fjólublárri peysu úr angóraull. Sétteringar rauða hársins, fjólubláu peysunnar og bleiks neónvaralitsins vekja minningar um nýlega ógleði. Hæ, segir Rauða Lóló.
Bæ, muldra ég um leið og ég geysist fram hjá símaborðinu og sé hvernig bleikt brosið, sem er að þenjast út á snotru en breiðleitu andliti hennar, smyrst saman við fjólublátt og rautt og slokknar svo í vemmilegum regnboga. Um leið og hún seilist í símann gjóar hún á mig augunum. Síminn hafði ekki hringt.
Ég storma inn í ritstjórnarsalinn. Þar er allt með kyrrum kjörum. Guffi og Rúna í erlendu fréttunum koma á móti mér, búin til heimferðar enda hefur síðum þeirra verið lokað fyrir löngu. Skrýtin stemning hér í morgun, segir Guffi við mig. Mér skilst að þú sért óskabarnið í dag, Einar.
Ég lít á hann snarlega. Tala við þig seinna, segi ég og hlamma mér niður við borðið mitt við austurgluggann. Sem snöggvast fallast mér hendur andspænis pappírsflórnum. En ég leita mér fróunar í sígildri vísdómsklisju á snjáðu veggspjaldi sem hefur fylgt mér í meira en áratug. Snyrtilegt skrifborð er til marks um sjúkt hugarfar.
Á meðan tölvan er að hita sig upp bruna ég að kaffvélinni, helli blekinu í byttuna, þefa af mjólkinni sem er súr að venju, finn klígjuna rísa, kveiki mér í sígarettu, finn klígjuna hníga og tek andlegt tilhlaup að fréttinni. Kyrrðin á ritstjórninni er í hrópandi mótsögn við lætin inni í mér. Nokkrir félaga minna skrafa saman í hnapp í hinum enda salarins og líta annars lagið í áttina til mín. Valgeir, elsti blaðamaðurinn á staðnum, virðist dotta þar sem hann snýr baki í mig með lappirnar uppi á borði. Ég sest, ryð mér braut gegnum pappírshauginn og raða þar minnispunktunum. Soga reykinn niðu í viðkvæman magann, leyfi adrenalíninu að streyma fram og legg svo í hann:

EINN af gestum Flugvallarhótelsins í Reykjavík fannst látinn í herbergi sínu í morgun og virðist hafa verið myrtur.
Rannsókn málsins er á frumstigi en Jónas Pálsson hjá rannsóknarlögreglunni sagði í samtali við Síðdegisblaðið að ljóst væri að maðurinn, sem mun vera útlendingur, hefði látist með vofeiflegum hætti.

Ég anda léttara við að sjá fréttina taka á sig mynd á skjánum. Kveiki mér í annarri sígarettu og er með vísifingur hægri handar reiddan yfir lyklaborðinu þegar sagt er á bak við mig:
Er engin leið fyrir þig að taka tillit til annars fólks?
Ég lít um öxl og sé samanherpt andlit fréttastjórans bera við loft eins og gyllinæð í gömlu rassgati. Hér hefur verið reyklaust svæði í tvö ár, hreytir gatið út úr sér.
Ég stekk á fætur og finn að ég er að missa stjórn á mér. Kem sjálfum mér á óvart, næ að stilla mig og segi kalt: Viltu fá þessa frétt í blaðið Ásbjörn eða viltu ekki fá þessa frétt í blaðið? Þitt er valið.
Hann rekur mig í gegn með augunum, snýst á fæti og skröltir rasssíður burt á grænum inniskóm.

Rannsóknarlögreglan fékk tilkynningu um atburðinn frá einum starfsmanna Flugvallarhótelsins kl. 06:04 en verst allra frekari frétta af málinu. Samkvæmt heimildum blaðsins átti ein af herbergisþernum hótelsins skömmu áður leið fram hjá herbergi mannsins á annarri hæð og tók eftir því að dyrnar voru í hálfa gátt og opið fyrir útvarpstæki. Þegar hún kom inn í herbergið lá maðurinn, sem mun vera á miðjum fertugsaldri, nakinn í rúmi sínu og stóðu hnífur og gaffall út úr sitthvorri augnatóttinni.

(s. 17-19)