Náttvíg

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Náttvíg:


Kemur ekki alltaf að því að eldurinn kulnar og ólgan í blóðinu þverr? Þegar stormar ævinnar kyrrast, þá ættu að taka við stillur. Var hann ekki búinn að flækjast nóg, og sjá full mikið af þessari frægu veröld þeirra sem einu sinni átti að vera svo merkileg og forvitnileg? Ég held þeir megi sigla sinn sjó. Hann vissi ekki hvar hann ætti erindi. Hvorki heim né um borð, þegar maður fer svona að hugsa út i það og sjá það svona einsog það er. Engan drap ég, segir hann. Það ætla ég rétt að vona, tautaði hann.
Drapst þú líka mann? segir klementínumaðurinn og reyndi að hlæja án undirtekta.
Ég var orðinn of syfjaður til að þetta tal kæmi mér við. Hausinn á mér var allur í slitrum, einsog ógnarlangur ormur skorinn í ótal iðandi parta, hver með sínum lit og ljósagangi og engdust í loftinu fyrir augum mér undan því að ná ekki saman í sína upphaflegu mynd eða aðra endanlega. Söfnuðurinn fjaraði út fyrir augum mér, og það var einsog ég væri staddur í leikhúsi að lokinni sýningu, eða í miðri æfingu þegar allt leysist upp í samræður á sviðinu án ráðagerða um framhald, og birta dagsins eyddi öllum blæ ævintýrs, ég kvaddi ekki einu sinni briddsspilarann og læddist út til að vera klár á vaktina um kvöldið, og vissi ekki hvernig fór um veizluna sem var boðið til á Gauknum, nema treysti því einu að frjálshyggjumaðurinn yrði studdur í fögnuðinn og yrði vakinn þegar kæmi að því að borga greiða með visakortinu sínu.
Stóra kommastelpan tók ein eftir því þegar ég fór, hún horfði á eftir mér og mér fannst hún vera í nokkrum ljóma.

(s. 132-133 )