Náttúrugripasafnið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011
Flokkur: 

Myndir eftir höfundinn.

Um bókina:

Í rykfallinni verslun í New York fær Rúnar dularfullan pakka sem hann er beðinn að fara með heim til Íslands. Á sama tíma fá vinir hans skrítna sendingu úr fjarlægri heimsálfu. Heima í Ásgarði er verið að undirbúa opnun náttúrugripasafns þar sem uppstoppaður ísbjörn verður til sýnis en það vantar eitthvað spennandi á sýninguna. Eitthvað alveg einstakt!

Úr bókinni:

Lilli Ragga Fibb og Magga Ragga Fibb hendast gegnum létta snjódrífuna. Þau rífa upp dyrnar á pósthúsinu og ryðjast inn. Það fer góður slatti af snjó með þeim inn á gólf. Þau eru alveg hrikalega spennt! Það er ekki á hverjum degi sem þau fá sendan miða sem á stendur að þau eigi pakka í póstafgreiðslunni. Satt best að segja hefur það aldrei gerst áður.

Þau bíða óþolinmóð á meðan Stína á póstinum afgreiðir Siggu gömlu Valda. Hún hjálpar henni að telja krónupeninga upp úr buddunni sinni til að borga fyrir frímerki. Þetta er flókið og seinlegt því Sibba gamla er með alls konar gamla, útlenska smápeninga saman við krónurnar. Svo heyrir hún lítið og sér illa og heldur að Stína sé að reyna að plata hana til að borga of mikið.

„Hérna er fimmtíu króna peningur,“ segir Sibba gamla ákveðin.

„Nei, Sigurbjörg mín, þetta er gylltur hnappur, hann hefur áreiðanlega dottið einhvern tíma af sparikápunni þinni,“ svarar Stína þolinmóð og blikkar krakkana.

Þegar þessum viðskiptum lýkur loksins og Sibba gamla staulast út er röðin komin að þeim. Þau afhenda Stínu miðann. Hún lítur snöggt á hann og skimar svo haukfránum augum um hillurnar fyrir innan afgreiðsluborðið.

„Já, já, alveg rétt, ég man greinilega eftir þessum pakka,“ segir hún og lítur íbyggin á krakkana. „Ég tók alveg sérstaklega eftir honum þegar hann kom af því hann er svolítið spes.“ Hún teygir sig upp í eina hilluna. „Áttuð þið von á sendingu einhvers staðar langt utan úr heimi?“

„Ha, við? Nehei, við áttum ekki von á neinu,“ svarar Magga undrandi. „Við fáum sko aldrei pakka með póstinum.“

(35-6)