Napóleonsskjölin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1999
Flokkur: 

Úr Napóleonsskjölunum:

 - En það er eitthvað að.
 - Ung kona í Reykjavík. Systir annars þeirra sem trufluðu Ratoff á jöklinum. Hann mun hafa komið þeim skilaboðum til hennar í gegnum farsíma að á jöklinum væru vopnaðir hermenn og flugvél. Ratoff hafði það út úr honum. Hún hefur gengið úr greipum okkar manna í tvígang og fengið aðstoð hjá bandarískum starfsmanni á Vellinum. Hún leitaði eflaust til hans vegna þess sem bróðirinn sagði um hermennina. Gamall kærasti hennar eða eitthvað slíkt. Þau eru á vallarsvæðinu. Því hefur verið lokað tryggilega er mér sagt. Yfirmaður herstöðvarinnar vinnur með okkur í þessu. Þau komast ekki langt.
 Þeir þögðu í nokkra stund.
 - Þetta var hernaðarpólitík, sagði Miller loks. Við hreinsum til eftir pólitíkusana. Höfum alltaf gert það.
 - Ég veit. Samt held ég frekar að þetta hafi verið stundarbrjálæði. Það gerðust hlutir í stríðslokin sem taka öllum skáldskap fram.
 - Ekki þar fyrir að við áttum að halda áfram. Patton hafði rétt fyrir sér.
 - Þeir hikuðu.
 - Og við töpuðum helmingnum af Evrópu.
 Miller bætti við koníakið. Það var meðal fárra lífsgæða sem hann leyfði sér orðið að njóta. Læknar höfðu sagt honum að hann ætti stutt eftir. Honum var sama. Hann hafði fyrir löngu sætt sig við dauðann og tæki honum fagnandi þegar þar að kæmi.
 - Það er ekki okkar hlutverk að skrifa söguna, sagði hann.
 - Nei, okkar hlutverk er að þurrka út og skrifa upp á nýtt, svaraði Carr. Það er ekkert til sem heitir sögulegur sannleikur lengur. Við höfum falið svo margt, logið svo mörgu, búið til svo margt, sagt satt um það sem er logið og logið um það sem er satt. Tekið eitt út og sett annað í staðinn. Það er okkar hlutverk. Einhver sagði að mannkynssagan væri aðeins samsafn af glæpum og óhöppum, en hún er líka samsafn af vandlega hagræddum lygum.

(s. 86-87)