Nafnlausir vegir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Hér heldur Einar Már áfram að rekja sögu hinnar litríku fjölskyldu sem lesendur þekkja úr bókunum Fótspor á himnum og Draumar á jörðu. Sögusviðið er Ísland á áratugum hernáms og kjarabaráttu. Úr hinum stóra systkinahópi eru þeir fyrirferðarmestir Ívar, náttúrulækningafrömuður, sem auðgast og verður sjálfstæð lánastofnun, og svo baráttumaðurinn Ragnar, kommúnisti og Spánarfari. Sem fyrr fléttar Einar Már saman sögu einstaklinga og samfélags þannig að úr verður hrífandi þjóðarsaga, byggð jöfnum höndum á sögulegum heimildum og hugarflugi.

Úr Nafnlausum vegum:

 Amma hafði alltaf meiri áhyggjur af Ragnari en öðrum börnum sínum. Það var erfitt að vista hann á bæjum. Hann var ýmist sendur burt eða strauk. Hann kallaði séra Sigtrygg á Einarsvöllum fífl og fant og það hvarflaði ekki að honum að líta á bændurna sem bjargvætti sína og lífgjafa.
 Það er ég sem þræla fyrir þá en ekki þeir fyrir mig, sagði hann eitt sinn við móður sína sem ekki mátti heyra eitt styggðaryrði um bændur eða sveitir og helst ekki um presta, þó hún hefði auðvitað mismikið álit á þeim.
 Ekki minnkuðu áhyggjur hennar eftir að Ragnar var kominn til borgarinnar og byrjaður að sækja fundi hjá kommúnistum með Grími boxara, Olla Spánarfara og ótal öðrum, því þótt ömmu þættu þetta allt vænstu piltar sátu þeir á fundum fram eftir öllum kvöldum og héldu svo áfram að kjafta langt fram á nótt.
 Þegar hún færði þetta í tal við Ragnar sagði hann að þetta skipti engu máli; byltingin yrði sennilega að næturlagi.
 Það breytir heldur engu hvenær ég sef og hvenær ég vaki, því ég fæ enga vinnu, sagði hann. Öllum sem þora að hugsa er bannað að vinna.
 En þau mæðgin drukku mikið kaffi og ræddu oft saman um stjórnmál og trúmál. Þótt Ragnar væri hrifinn af Jesú hvarflaði ekki að honum að gerast hvítasunnumaður einsog móðir hans. Sá söfnuður var bara útibú frá Sjálfstæðisflokknum í hans augum.
 Ég veit vel, sagði móðir hans, að ef þér væri dýft í vatn til að taka skírn sæirðu ekki hvíta dúfu heldur rauðan fána.
 Ég þarf ekki að láta dýfa mér í einhverja laug til þess, sagði Ragnar.
 Ég veit líka að ef guð almáttugur birtist þér þá liti hann út einsog Einar Olgeirsson, sagði móðir hans.
 Það er ekkert víst að þeir séu svo ólíkir, sagði Ragnar.

(s. 32-3)