Nafn rósarinnar

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984

Umberto Eco: Il nome della rosa.

Úr Nafni rósarinnar:

Við færðum okkur þangað sem verið hafði vinnustaður Adelmo, þar sem enn lágu nokkur ríkulega lýst saltarablöð. Það voru blöð úr ágætasta kálfskinni - sem er drottning meðal handritaskinna - og síðasta blaðið var ennþá fest við púltplötuna. Það hafði nýlega verið strokið með vikursteini og mýkt með gifsi og síðar sléttað með hefli og frá örsmáum götum sem höfðu verið stungin í jaðrana með oddmjóum síl höfðu verið strikaðar allar línurnar sem stýra skyldu hönd listamannsins. Fyrri helmingurinn var þegar gullskrifaður og munkurinn hafði byrjað að rissa myndirnar á spássíuna. Hin blöðin voru þegar fullfrágengin, og þegar við skoðuðum þau, gat hvorugur okkar Vilhjálms varizt aðdáunarópi. Þetta var saltari, og á spássíu hans var dregin upp veröld þveröfug við þá sem skynfæri okkar hafa vanizt. Það var eins og yxi fram á útjaðri þeirrar ræðu sem samkvæmt skilgreiningu er ræða sannleikans, önnur lyginnar ræða, bundin þeim sannleika djúprættum taugum með undursamlegum skírskotunum fólgnum í ráðgátum, og vakti heim þar sem öllu var snúið á hvolf, þar sem hundar flýja hérann og hirtir elta ljónið. Og smálítil höfuð stjákluðu á fótum fugla, dýr með hendur af mönnum út úr bakinu, loðin höfuð og spruttu fætur út úr þeim, sebrarenndir drekar, ferfætlingar með slönguháls sem hlykkjaðist allur í þúsund óleysandi hnútum, apar með hjartarhorn, vatnadísir í fuglsham með gagnsæja vængi á bakinu, handalausir menn og uxu út úr bakinu á þeim aðrir mannslíkamir eins og kryppur, og verur með tenntan munn á maga, mannverur með hrosshausa og fætur manna, fiskar með fuglsvængi og fuglar með sporð, tvíhöfða kykvendi með einn búk, ellegar tvíbúka með eitt höfuð, kýr með hanastél og fiðrildavængi, konur með alhreistrað höfuð eins og fiskhryggur, tvíhöfða kímerur fléttaðar saman við drekaflugur með eðluskolta, kentárar, drekar, fílar, mantíkorar, skuggfætlingar endilangir á trjágrein, griffonar, og út úr hala þeirra spratt bogskytta í fullum stríðsskrúða, djöfulleg skrípi með endalausan háls, partar úr skepnum með mannlegu sköpulagi blönduðust dvergum í dýrslíki, stundum á sömu blaðsíðunni og sveitalífsmyndum og allt málað af svo miklu lífi og fjöri að maður hefði getað haldið að verurnar væru lifandi, allt lífið á ökrunum, plægjendur, þeir sem tíndu ávexti, sláttumenn, spunakonur, sáendur við hliðina á refum og skunkum vopnuðum lásbogum að sækja að borgarvirki sem apar vörðu.

(s. 76)