Næturgestir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1961
Flokkur: 
Úr Næturgestum:

Ég kallaði þig hingað, ungi maður, til að biðja þig um liðveislu í smáfyrirtæki sem ég hef á prjónunum. Þetta er algert einkamál okkar tveggja. Þú lætur það ekki uppi við nokkra lifandi sál að viðlögðum ærumissi og atvinnu. Skilurðu það?
 Já ég skil það og lofa að bregðast ekki trausti yðar.
 Gott og vel. Sjáðu til. Ég er með skip sem ég þarf að losna við. Ég er búinn að reyna að selja það, en það er svo úr sér gengið að enginn lítur við því. Það liggur á höfninni lon og don og er fyrir öðrum skipum sem leggja að landi. Ég er búinn að gera margar tilraunir til að losna við það, en allt árangurslaust. Það er óvátryggt svo ég fæ engar bætur fyrir þær skemmdir sem hafa orðið á því síðan ég keypti það. Satt að segja er það svo illa farið að engin vátryggingafélög fást til að tryggja. Það er að heita má gerónýtt. Þessvegna verð ég að losna við það eins fljótt og ég get. Það skapar mér óþörf útgjöld. Eina leiðin til að losna við það er að sökkva því, en það er ekki hægt hérna í höfninni eða útá firðinum afþví þar er of grunnt. Það verður að fara með skipið út fyrir fjarðarmynnið og sökkva því þar. Verkið er alveg hættulaust. Þú ferð með öðrum manni og þið hafið björgunarbát tilbúinn á þilfarinu. Strax og leki er kominn að skipinu getið þið róið í land og eruð úr hættu. Ég geng þannig frá öllum hnútum að engan geti sakað. En þú verður að vera þögull einsog gröfin. Fólkið hérna í plássinu getur tekið það illa upp ef skipi er sökkt rétt við fjarðarmynnið. Núnú, hvað segirðu við þessu?
 Sveinn situr lamaður og starir á forstjórann augum sem í senn lýsa furðu og hrolli. Hann rifjar upp fyrir sér samræður bræðranna við tunnustaflana eina nótt ekki alls fyrir löngu og veit að Guðmundur Strútfells hefur ekki sagt honum allan sannleikann. En hvað getur hann gert? Hann er bundinn loforði sínu við forstjórann og á engin úrræði afþví hann er á valdi hans. Hefur hann í rauninni nokkurntíma staðið jafnfjarri því marki að verða maður?

(s. 80-81)