Myrká

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 

Um Myrká

Í snyrtilegri íbúð í Þingholtunum í Reykjavík finnst fáklæddur ungur maður liggjandi í blóði sínu. Engin merki eru um innbrot eða áflog en óminnislyf í jakkavasa vekja grunsemdir um illar fyrirætlanir og undir rúmi leynist fjólublátt kvenmannssjal með sterkri og framandlegri lykt. Vísbendingarnar leiða lögregluna fljótlega á slóð dulins ofbeldis og hrottalegra sálarmorða, harma sem aldrei verður hefnt til fulls.

Erlendur tekur sér frí í þessari bók en aðrir í lögguteymi hans rannsaka málið.


Úr Myrká

I

Hann klæddi sig í svartar gallabuxur, hvíta skyrtu og þægilegan jakka, fór í spariskó sem hann hafði átt í þrjú ár og hugsaði um staðina í miðbænum sem ein þeirra hafði nefnt.

Hann blandaði sér tvo hæfilega sterka drykki og lauk þeim fyrir framan sjónvarpið á meðan hann beið þess að geta farið í bæinn. Hann vildi ekki leggja of snemma af stað vegna þess að einhver gat veitt honum eftirtekt ef hann drollaði lengi inni á fámennum stöðum. Hann vildi forðast það. Mikilvægast var að falla inn í fjöldann, láta engan taka eftir sér, vera eins og hver annar gestur. Hann mátti ekki vera eftirminnilegur á nokkurn hátt, ekki skera sig úr. Ef svo ólíklega vildi til að einhver spyrði þá var hann einn heima hjá sér allt kvöldið að horfa á sjónvarpið. Ef allt gengi að óskum myndi enginn eftir að hafa séð hann neins staðar.

Þegar tími var til kominn lauk hann úr glasinu og fór út. Hann var örlítið hreifur. Hann bjó nærri miðbænum og gekk í átt að kránni í haustmyrkrinu. Bærinn var þegar orðinn krökkur af fólki í leit að helgarskemmtun. Biðraðir voru teknar að myndast við helstu staðina. Dyraverðir gerðu sig breiða. Menn nöldruðu í þeim að hleypa sér inn. Tónlist barst út á götu. Matarilmur frá veitingahúsunum blandaðist saman við áfengisþefinn af kránum. Sumir voru drukknari en aðrir. Hann hafði óbeit á þeim.

Hann komst inn á krána eftir tiltölulega stutta bið. Staðurinn var ekki einn af þeim vinsælustu en samt var varla hægt að koma fleirum inn þetta kvöld. Það var ágætt. Hann hafði þegar tekið að svipast um eftir stúlkum eða ungum konum á leið sinni um bæinn, helst ekki mikið yfir þrítugu, helst ekki allsgáðum. Þær máttu finna á sér en ekki vera of drukknar.

Hann lét lítið fyrir sér fara og klappaði enn einu sinni á jakkavasann til að fullvissa sig um að hann væri með það. Hann hafði klappað létt á vasann nokkrum sinnum á leiðinni og hugsað með sér að hann væri einn af þessum taugabiluðu sem þyrftu sífellt að athuga hvort þeir hefðu læst á eftir sér, hvort þeir hefðu gleymt lyklunum, hvort örugglega væri slökkt á kaffivélinni, hvort logaði á eldunarhellu. Hann var haldinn þessari þráhyggju og minntist þess að hafa lesið um hana í vinsælu lífsstílsblaði. Í sama blaði var grein um aðra þráhyggju sem hann hafði. Hann þvoði sér um hendurnar tuttugu sinnum á dag.

Flestir voru með stórt bjórglas og hann bað um eitt slíkt. Barþjónninn tók varla eftir honum og hann gætti þess að greiða með seðlum. Hann átti auðvelt með að hverfa í fjöldann. Þarna var mest fólk á hans aldri með vinum sínum og vinnufélögum. Hávaðinn varð ærandi þegar gestir staðarins reyndu að yfirgnæfa gargandi rapptónlist. Hann leit rólega í kringum sig og tók eftir nokkrum vinkvennahópum og konum sem virtust vera með mönnunum sínum en sá enga sem var ein á báti. Hann hafði ekki lokið úr glasinu þegar hann fór út aftur.

Á þriðja staðnum sá hann konu sem hann þekkti. Hann hélt að hún gæti verið um þrítugt og hún virtist vera ein. Hún sat við borð á reyksvæði þar sem var margt annað fólk en hún var örugglega ekki í fylgd með því. Hún saup á margarítu og reykti tvær sígarettur þá stund sem hann fylgdist með henni úr fjarlægð. Fullt var út úr dyrum á staðnum en enginn sem vék sér að henni virtist vera að skemmta sér með henni. Tveir karlmenn yrtu á hana en hún hristi höfuðið og þeir fóru. Þriðji maðurinn stóð yfir henni og það var eins og hann ætlaði ekki að láta sér segjast.

Hún var dökkhærð, andlitsfríð og ofurlítið feitlagin, smekklega klædd í pils og ljósan stuttermabol með fallegt sjal yfir herðunum. Framan á bolnum stóð San Francisco og eilítið blóm stóð upp úr F-inu.

Henni tókst að losa sig við manninn og honum sýndist hann hreyta einhverju í hana. Hann gaf konunni færi á að jafna sig og lét nokkra stund líða áður en hann gekk til hennar.

- Hefurðu komið þangað? spurði hann.

Dökkhærða konan leit upp. Hún kom honum ekki alveg fyrir sig.

- Til San Francisco? sagði hann og benti á bolinn.

Hún leit niður á brjóstin á sér.

- Meinarðu þetta? sagði hún.

- Það er yndisleg borg, sagði hann. Þú ættir að fara þangað einhvern tíma.

Hún horfði á hann eins og hún væri óviss um hvort hún ætti að segja honum að hunskast burt eins og hinum. Svo var eins og hún myndi eftir að hafa séð hann áður.

- Það er svo margt um að vera þar, sagði hann. Í Friskó. Margt að skoða.

Hún brosti.

- Þú hér? sagði hún.

- Já, gaman að hitta þig. Ertu ein?

- Ein? Já.

- Hvað með Friskó? Þú verður að fara þangað.

- Ég veit, ég hef ...

Orð hennar drukknuðu í hávaðanum. Hann strauk hendi yfir jakkavasann og beygði sig nær henni.

- Það er svolítið dýrt að fljúga, sagði hann. En, ég meina ... ég kom þangað einu sinni, það var frábært. Yndisleg borg.

Hann notaði markvisst ákveðin orð. Hún horfði upp til hans og hann ímyndaði sér að hún væri aað telja á fingrum annarrar handar hversu marga unga karlmenn hún hefði hitt um dagana sem notuðu orð eins og ,,yndisleg.

- Ég veit, ég hef komið þangað.

- Jæja. Má ég kannski setjast hjá þér?

Hún hikaði andartak og bjó svo til pláss fyrir hann.

Enginn veitti því sérstaka athygli inni á staðnum og heldur ekki þegar þau fóru út saman rúmri klukkustund síðar og heim til hans eftir fáförnum götum. Þá var lyfið tekið að virka. Hann hafði boðið henni upp á aðra margarítu. Þegar hann sneri til baka frá barnum með þriðja drykkinn hennar fór hann í jakkavasann og tók upp lyfið og læddi því út í drykkinn. Það fór vel á með þeim og hann vissi að hún yrði ekki til vandræða.

(6-8)