Mýrin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Mýrinni:

 - Er þetta ekki dæmigert íslenskt morð? sagði Sigurður Óli sem komið hafði inn í kjallarann án þess að Erlendur tæki eftir honum og stóð við líkið.
 - Ha? sagði Erlendur niðursokkinn.
 - Subbulegt, tilgangslaust og framið án þess að gerð sé tilraun til þess að leyna því, breyta verksummerkjum eða fela sönnunargögn.
 - Jú, sagði Erlendur. Ömurlegt, íslenskt morð.
 - Nema hann hafi dottið á borðið og lent með höfuðið á öskubakkanum, sagði Sigurður Óli. Elínborg var í fylgd með honum. Erlendur hafði reynt að takmarka umgang lögreglu- og tæknimanna og sjúkraflutningafólks á meðan hann gekk álútur um húsið með hatt sinn á höfði.
 - Og skrifað óskiljanlega orðsendingu í fallinu? sagði Erlendur.
 - Hann gæti hafa verið með hana í höndunum.
 - Botnarðu eitthvað í orðsendingunni?
 - Kannski þetta sé guð, sagði Sigurður Óli. Kannski morðinginn, ég veit það ekki. Áherslan á síðasta orðið er svolítið forvitnileg. Stórir stafir í HANN.
 - Mér sýnist þetta ekki vera nein flýtiskrift. Síðasta orðið er skrifað með blokkstöfum en hin tvö með skrifstöfum. Gesturinn hefur gefið sér góðan tíma til ritstarfanna. Lokar samt ekki á eftir sér. Hvað þýðir það? Ræðst á manninn og hleypur út en skrifar eitthvert óskiljanlegt bull á blað og vandar sig við að leggja áherslu á síðasta orðið.
 - Það hlýtur að vera átt við hann, sagði Sigurður Óli. Líkið, meina ég. Þetta getur ekki átt við um neinn annan.
 - Ég veit það ekki, sagði Erlendur. Hver er tilgangurinn með því að skilja eftir svona orðsendingu og leggja ofan á líkið? Hver gerir svona? Hvað vill hann segja með því? Er hann að segja okkur eitthvað? Er morðinginn að tala við sjálfan sig? Er hann að tala við líkið?
 - Ruglað kvikindi, sagði Elínborg og ætlaði að beygja sig eftir orðsendingunni. Erlendur stöðvaði hana.
 - Kannski voru þeir fleiri en einn, sagði Sigurður Óli. Sem réðust á hann. 
 - Mundu eftir hönskunum, Elínborg mín, sagði Erlendur og lét eins og hann væri að tala við barn. Ekki spilla sönnunargögnum. Orðsendingin var skrifuð á borðinu þarna, bætti hann við og benti út í hornið. Blaðið er rifið úr gormabók sem fórnarlambið átti.
 - Kannski voru þeir fleiri en einn, endurtók Sigurður Óli. Honum fannst hann hafa hitt á áhugavert atriði.
 - Já, já, sagði Erlendur. Kannski.
 - Svolítið kaldrifjað, sagði Sigurður Óli. Fyrst drepurðu gamalmenni og svo sestu við skriftir. Þarf ekki stáltaugar í það? Er það ekki rætinn djöfull sem gerir svoleiðis?
 - Eða æðrulaus, sagði Elínborg.
 - Eða með messíasarkomplex, sagði Erlendur. Hann beygði sig niður eftir orðsendingunni og las hana yfir í hljóði.
 Stórkostlegan messíasarkomplex, hugsaði hann með sjálfum sér.

(s. 12–14)