Myndin af heiminum : Skáldsaga Íslands I

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Myndinni af heiminum:

Fréttir berast af mannlausri matarkistu úti í hafsauga. Þangað sækja ekki stríðsmenn í von um skjótfenginn gróða, heldur fjölskyldufólk í leit að landi. Hér þurfa að rúmast í einu fari mannfólk, vistir og búfénaður. Að minnsta kosti tvö eintök af hverri tegund: kind, hestur, kýr, hundur, köttur, sýr . . . Siglingin getur varað frá tíu dögum upp í þriggja mánaða volk. Fyrir utan þá sem halda alla leið til himna via hafsbotn.
 Hvenær komum við? spyrja börnin, nákvæmlega með þessum orðum (þótt framburðurinn kunni að hafa breyst). Ýmist við skeggjaða vanga feðranna eða í pilsfaldi mæðranna. Og andlit foreldranna snúa mót vestrinu, augun sjónhenda öldur utan enda alveg þangað til haf og loft renna saman í eitt. Vindur blæs í segl, leiðarsteinn vísar veginn, hvalir senda stróka til himins. Kýr baular, kind jarmar, hestur frýsar, hundur geltir, köttur mjálmar, gylta rymur - en laumufarþeginn lætur lítið fyrir sér fara: mús! Svo lítið ber á læðist hún í forðann sem var naumur fyrir. Nagar hraun af hrossi.
 En er ekki annar laumufarþegi um borð? Sá vegur þyngst og er þó minnstur að fyrirferð: hugurinn! Þessi harði diskur sem enn hefur ekki tekist að ákvarða hvað er mörg megabæt. Og rúmast í einu litlu heilabúi. Aldrei hægt að gera nákvæmt afrit, ekkert copy conform.
 Aftur á móti fóstrið í kviði, án þess að móðirin viti er lífsklukka byrjuð að tifa í legi, það fer ekki mikið fyrir því, tvö grömm, við þyrftum smásjá til að greina það, það líkist einna helst síli, við erum síli! Við vorum einusinni síli, við erum komin úr hafinu þaðan sem fóstrið fer í gegnum þróunarsöguna og hefur gert í milljónir ára áður en Darwin stamaði henni upp í Þróun tegundanna.
 Á öðrum stað í skipinu er annar fósturvísir, þrælahaldarinn hefur ruðst framhjá bónda nýfenginnar ambáttar. Jóðið sem sú írska ber undir belti verður eign húsbónda síns eins og hvert annað amboð eða gripur. Víkingar hafa gengisfellt evrópska þrælamarkaðinn með offramboði. Það er varla til svo aumur bóndi að hann hafi ekki ráð á ambátt eða þræl í bland við önnur dráttardýr.

(s. 43-44)