Músin sem læðist

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1961
Flokkur: 

2. útg. breytt, Reykjavík : Uglan, 1994.

Úr Músinni sem læðist:

Ég sefaðist. Ég fór að hugsa um hvað himininn væri endalaus og af hverju hann væri alls staðar og hvergi. Ég hugsaði um það, að á bak við hann tæki við annað endaleysi, og þannig liði þetta langt áfram, langt endaleysi, langt tóm, eins og langi dauðinn.

Meðan ég lá með döggvaða jörðina við bakið, en himininn fyrir ofan mig, ekki ósvipaðan bláu skálinni sem brotnaði á jólunum, þá byrjaði mig að svima. Ég hafði á tilfinningunni að ég lægi uppi á húsþaki og innan skamms myndi ég renna niður það á fleygiferð og steypast í hyldýpið, ef ég hreyfði mig, svo ég krafsaði höndunum ofan í gulnað grasið og ríghélt mér á meðan ég starði í himintómið. Ég sá ekkert annað en fölblátt tóm hvernig sem ég rýndi og hugsaði um hvar stjörnurnar feldu sig á daginn. Allt í einu sagði ég hálfhátt:

Andskotans guð!

Ég ríghélt mér í jörðina og endurtók það hægar:

Andskotans guð!

Ég bjóst við að guð hefndi sín á mér. Ég hélt að hann myndi kasta loftsteini í mig sem hitti á milli augnanna svo fast að þau þeyttust úr höfðinu. Ég hélt að hann kastaði í mig stjörnu og hún mundi kremja höfuðið á mér. Ekkert gerðist.

Ég hló ögrandi hlátri. Ég skoraði á guð að reyna að refsa mér með harðri hendi, ef hann þyrði. Ekkert gerðist. Ég fann örlítinn herping í augunum, og á eftir var engu líkara en spennan yrði minni.

Ég velti mér á grúfu og kallaði ofan í jörðina. Ég kallaði ofan í hörku hennar og mjúkt grasið, þangað til að titringur fór um mig og gleði og skjálfti.

Andskotans, helvítis guð!

Ég ríghélt mér í jörðina á grúfu og hélt að guð myndi hæfa mig í hnakkann með sleggju, svo ég rækist eins og nagli niður í jörðina eða hentist af henni í hyldýpið.

Ekkert gerðist.

Ég velti mér aftur á bakið, horfði í tæran geiminn og fann harða jörðina við bakið.

(s. 178-80)