Múkkinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úr Múkkanum:

 Þeir voru fjórir saman á tveim bílum og þeir stoppuðu hjá Sveini bónda og tík hans, þar sem hann stóð við veginn og tottaði pípustertinn, sem settur var saman með svörtu ísóleringarbandi. Þeir stóðu drjúga stund á bakkabrúninni og sáu út yfir flúrurnar sem voru óðum að koma upp úr á útfallinu. Sérkennileg, þessi vík fyrir neðan, og þó eins og allar hinar víkurnar, með klettabrík á vinstri hendina og steinhnullungum á hina eins og einhver vel við vöxt hefði skemmt sér við að sitja uppi á fjallsbungunni og rífa niður klettasyllurnar og grýta björgunum af hendi út yfir holtin og ofan fyrir bakkana, þar sem þau höfðu lent saman af inngróinni tryggð brota af einu bergi, og síðan hafði sjórinn verið að slípa þau hnattlaga og átti þó langt í land. Það vottaði fyrir krókóttri lænu inn á milli stórsteinanna.
 - Hér var útræði áður fyrr, sagði Sveinn bóndi og tottaði pípu sína með stuttum þéttum reykhnoðrum út um vinstra munnvikið og skipti svo um munnvik og sendi hnoðrana út um hitt vikið, önnur nösin virtist vera stífluð því það kom enginn reykur út um hana þegar hann talaði. - Þeir voru með vör hérna fyrir neðan. Það er lítið eftir af henni nú.
 Milli stórgrýtisins og klampanna lágu þangbunkarnir uppvöðlaðir eftir endilangri víkinni, brúnir og flekkóttir í brattri fjörunni og fyrir framan voru flúrurnar, þar sem hæglát úthafsaldan sveiflaði lífbrúnum þarabrúskum létt til og frá í lygnunni innan við treggjaldann, og upp af grænir slýpollar með sægulum sölvum. Lítil lækjarseitla kom ofan hjallana, hún var ekki nógu vatnsmikil til að stikla í fossum, grafin á milli grasloðinna þúfnakolla sytraði hún niður á sjóarkambinn. Þeir þræddu gömlu fjárgötuna á ská í halarófu á eftir Sveini þar sem hann gekk rólega ofan bakkana og niður í þangvíkina og þeir styggðu upp krummana þrjá, sem hoppuðu á kambinum ofan við þarann. Æðarfuglarnir syntu út af klampabrúninni handar og dúuðu í hópum á bárunni og múkkatetur flaug skimandi inn með landinu og strauk flata ölduna með hægri vængbroddinum milli þess sem hann saxaði loftið í stuttum og tíðum vængjatökum. Þeir gengu eftir kambsbrúninni. Þar var stráð veðruðum sæsorfnum spýtnabrotum og sprekum, hálfur strákústur, tætt plastfat, skeljar, visnuð þönglabrot, og lækjarsytran breiddi úr sér yfir kambinn og niður af bakkanum ofan í þarabrúkið, á brúninni höfðu harðar klaufir gert breiða moldarslóð og breytt henni í forarlæk. Þeir fetuðu yfir forina eftir steinkollunum sem upp úr stóðu. Lögregluþjónninn hélt á seglinu samanlögðu undir vinstri handlegg og hann sneri sér við eins og hann vildi aðstoða hafnarvörðinn en gamlir fæturnir voru ekki búnir að gleyma steinum fjörunnar, hann hoppaði léttilega yfir á eftir hinum. Og svo beygði Sveinn bóndi niður geil milli þarabunkanna. Læknirinn laut fram og sópaði rösklega blöðkunum til hliðar þangað til líkaminn var allur kominn undan þanginu. Gulur sjóstakkurinn var illa farinn og önnur ermin flett en svört peysan heilleg undir, nankinsbuxurnar rifnar og sá í trosnað föðurland, hosurnar furðu heilar, hendurnar illa kroppaðar, ekkert hold lengur á höfði, nema skinnflygsa með hári í nánd við eyrað sem einu sinni var.

(s. 126-127)