Möskvar morgundagsins: Uppvaxtarsaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1981

Úr Möskvum morgundagsins

Þegar kom niðrað Vatnsþró var ekki um að villast að Reykjavík hafði tekið gagngerum stakkaskiptum. Inn Hverfisgötu þustu þungir herbílar hlaðnir grænklæddum mönnum og álengdar kom herflokkur þrammandi háttföstum skrefum og hafði hver hermaðurinn stóran riffil um öxl. Forvitin andlit voru í gluggum og slæðingur af fólki á gangstéttum. Ég velktist ekki lengur í vafa um að hér væru komnar hersveitir hans hátignar Bretakonungs, þekkti strax búningana af myndum. Mikill var léttirinn!

 Á Lækjartorgi var allt á ferð og flugi. Herflokkar þrömmuðu í ýmsar áttir, herbílar óku hjá með þungum drunum, hnarreistir menn á mótorhjólum þutu um göturnar og mergð forvitinna bæjarbúa fylgdist með því sem fram fór og þá ekki síst umferðaröngþveitinu sem orsakaðist af umsvifum hersins. Nú fyrst skildi ég til hlítar hvað við var átt þegar sagt var að allt væri í hers höndum.

 Ég slammaði niðrað höfn þarsem umstangið átti upptök sín. Svæðið fyrir framan Hafnarhúsið var afmarkað og þar skipað á land hermönnum og varningi sem fluttur var frá herskipunum á ytri höfninni, en við hafnarbakkann lá breskur tundurspillir. Austast á hafnarbakkanum stóð hópur karla og kvenna afsíðis og hafðist ekki að, en álengdar við hann var flokkur hermanna og hélt bæjarbúum í hæfilegri fjarlægð. Af tali manna skildist mér að hópurinn hefði staðið á bakkanum lengi morguns og væri að bíða eftir flutningi útí herskipin. Þetta aumkunarverða fólk var Þjóðverjar sem herinn hafði tekið fasta um morguninn og voru að bíða eftir því að fleiri bættust í hópinn. Alltíeinu sá ég mér til undrunar að gamall kunningi var meðal fanganna, maðurinn með skrýtna talandann sem við höfðum átt heima hjá fyrir sex árum og hafði leyft okkur Halldóri leikbróður mínum að heimsækja sig í smiðjuna þarsem hann var að smíða skeifur. Hann hafði ævinlega verið góður við okkur og hjálpsamur, aldrei gert flugu mein. Nú var hann fangi og átti að flytjast í annað land frá konu og börnum. Kannski kæmi hann aldrei aftur. - Öðruhverju komu bílar á vettvang og útúr þeim stigu fangar sem sóttir höfðu verið heim til sín eða í gistihús. Það flaug fyrir að einhverjir fangar hefðu verið sóttir austrað Litla-Hrauni: hvergi gátu þessir ólánsmenn verið óhultir.

(s. 262-263)