Morgunengill

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Morgunengill er sjöunda glæpasaga Árna um blaðamanninn Einar.

Af bókarkápu:

Það er ekki margt líkt með fátækum bréfbera norðan heiða og auðmanni með milljarðaskuldir á bakinu. Örlög beggja fléttast þó saman við leit Einars blaðamanns að réttlæti ekki síður en forsíðufréttum.

Sjaldan hefur hann tekist á við jafn erfitt sakamál. Ekkert er eins og áður var. Nema kannski það að eins dauði er annars brauð.

Úr Morgunengli:

Fyrir neðan niðurníddan skúr í sundinu liggur hrúgald í rauðri póstburðarpeysu og svörtum gallabuxum. Hrúgaldið reynist vera kona um þrítugt. Grár prjónatrefill er hertur um hálsinn. Hún kreppir báðar hendur um trefilinn en virðist of máttvana til að losa hann. Andlitið er blátt og náhvítt. Skelfingu lostin augun stefna út úr tótttunum. Munnurinn er afskræmdur, tungan bólgin og stjörf. Hún berst við að ná súrefni. Ég krýp snarlega hjá henni og sé þá að trefillinn er bundinn í rammgerðan hnút. Þessi kona er að gefa upp öndina. Hnúturinn er svo þéttur og samsettur að ég get hreinlega ekki leyst hann. Hann minnir mig á bindishnút sem hertur hefur verið af miklu afli til hins ýtrasta og svo bundinn rembihnútur ofan á hann, ef ekki tveir. Kuldinn hjálpar mér ekki við verkið. Konan berst skyndilega um á hæl og hnakka. Það hryglir í henni. Ég svipast um og sé nokkur glerbrot á víð og dreif. Ég gríp eitt þeirra og fer að saxa gegnum trefilinn framhjá hnútnum eins hratt og ég get en reyni um leið að gæta þess að glerið skeri hana ekki á háls. Loksins kemst ég í gegn og risti prjónaverkið í sundur. Hún sýpur hveljur þegar öndunarvegurinn opnast. Brjóstkassinn gengur ört upp og niður, en síðan hægir hann á sér.
Mér er ekki ljóst hvað ég á að gera næst. Enginn er sjáanlegur í grenndinni. Enn heyri ég þetta ýl sem fyrst vakti athygli mína. Ég seilist í gemsann og hringi í Neyðarlínuna. Á meðan ég veiti nauðsynlegustu upplýsingar horfi ég á konuna stynja upp nokkrum sundurslitnum orðum. Hún hljómar einkennilega, en mér heyrist hún hvísla:
„Hann ... talaði við mig ... án þess að tala við mig. Hann ... talaði við mig ... úr annarri ... átt.
Svo lokar hún augunum og virðist líða út af.
(s. 12-13)