Mitt er þitt

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Úr Mitt er þitt:

Fjandmaðurinn Páskafríið byrjaði ekki gæfulega hjá Tryggva. Hann lá andvaka langt fram eftir nóttu og hugurinn var á reiki. Alvarlegar ásakanir skólastjórans verkuðu eins og óþægilegir stingir í eyrum hans og hann vildi ekki trúa því að hann yrði rekinn úr skólanum fyrir þjófnað sem hann átti enga sök á. Hann reyndi að átta sig á því hvers vegna Hildur hefði beðið hann fyrirgefningar en honum fannst það gefa til kynna að hún ætti einhverja sök á því hvernig komið væri fyrir honum. Tryggvi vildi ekki trúa því að Hildur, þessi hlédræga, fallega stelpa, vildi skaða hann á einhvern hátt. Það hlaut eitthvað að búa að baki. Hvers vegna lenti hann í þessu? Hvers vegna vildi Hildur ekki tala almennilega við hann? Hvers vegna var hún svona sorgmædd á ballinu? Margar spurningar leituðu á hugann. Um miðja nótt fór Tryggvi fram úr rúminu og settist í gluggakistuna inni í stofu. Hann néri tánum saman, dró hnén að sér og greip með báðum höndum utan um þau. Nóttin var þögul og mest af öllu langaði hann til þess að svífa til einhverrar fallegrar stjörnu sem skein svo skært á himnum. Hann leiddi hugann að því hvort einhverjir byggju á öðrum hnöttum og hvort sama ranglætið væri þar og á jörðinni. Hann horfði á dimm húsin í nágrenninu og fannst ósanngjarnt að þau gætu verið með lokuð augun og sömuleiðis þeir, sem í þeim sváfu, á meðan hann væri sakaður um þjófnað. Í stöku húsi var ljós og lífsmark og Tryggvi velti því fyrir sér hvort þar væru einhverjir sem væru ranglega dæmdir eins og hann. Honum fannst gott að vorkenna sjálfum sér í smá stund þar sem hann húkti í gluggakistunni en það hafði hann ekki gert í háa herrans tíð. Skyndilega hvarf sjálfsvorkunnin eins og dögg fyrir sólu því Tryggvi sá hvar stjarna hrapaði, næstum því á hraða ljóssins og öll ummerki hennar og halinn, sem myndaðist þegar hún steyptist niður, voru horfin þegar Tryggvi ætlaði að fara að skoða þetta betur. Ósjálfrátt óskaði hann sér í huganum og sú ósk kom honum sjálfum á óvart. Hann ætlaði að eiga hana fyrir sig en skildi samt ekki í því af hverju hann óskaði sér ekki að sakleysi hans myndi sannast. Hvers vegna kom sú ósk ekki fyrst upp í hugann þegar stjarnan hrapaði? Skipti það ekki mestu máli fyrir hann núna? Tryggvi vissi að það þýddi ekkert að breyta óskinni því aðeins sú fyrsta ætti möguleika á því að rætast. Og það vonaði hann svo sannarlega, þrátt fyrir allt. Tryggvi gleymdi sér í gluggakistunni í drykklanga stund en þegar hann geispaði og móðan, sem myndaðist á rúðunni, skyggði á útsýnið út í nóttina vaknaði hann til meðvitundar um það að hann þyrfti að fara að sofa. Hann gekk niðurlútur inn í herbergið sitt og henti sér á rúmið. Hann ætlaði sér ekki að sitja aðgerðarlaus og láta ósveigjanlegan skólastjórann dæma sig sekan án þess að berjast til þrautar. Reyndar átti Tryggvi erfitt með að trúa því að skólastjórinn myndi reka sig úr skólanum ef hann héldi stöðugt fram sakleysi sínu.

(s. 66-67)