Misskipt er manna láni: heimildaþættir

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
0
Flokkur: 

3 bindi.

Úr Misskipt er manna láni:

VII

25. júlí 1875 bar upp á sunnudag. Hjálmar skáld reis af beði um morguninn og staulaðist út á kofahlaðið. Hann hafði verið „frískur eftir hætti fram á sláttinn“ segir saga hans og afráðið að skeppa þennan dag sér til skemmtunar upp að Valadal. Guðrún dóttir hans vissi af þeim ásetningi og beið komu föður síns. Veður höfðu haldizt allgóð það sem af var mánuðinum, þar til upp úr tuttugasta að snöggkólnaði og gekk í „norðanbálviðri með þokubelgingi og regnhraglanda“ eftir því sem Ólafur ritar, umboðsmaður í Ási. Þar sem Hjálmar gamli stendur hrumur fyrir dyrum úti blæs um hann kuldastormur norðan úr hafi, en veður er þó úrkomulaust.
    Öldungurinn sneri aftur inn í rökkvuð beitarhúsin og steig aldrei framar undir himins tjald. Hann kom inn annar maður en þegar hann gekk út og mælti við sambýlinga sína, „að nú væri venju brugðið fyrir sér: allir hlutir í kringum sig kæmi sér svo undarlega fyrir sjónir og líklegast ætti hann skammt eftir ólifað“. Hann kvartaði um vanlíðan, sagðist hættur við ferð sína að Valadal þann daginn og lagðist fyrir. Rannveig færði honum til hressingar heitt kaffi með brennivínstári saman við. Síðan rann Hjálmari svefn í brjóst. Hann svaf langa stund og rumskaði þá loks lítið eitt þegar Bjarni hafði á orði „að ekki færi vel um höfuðið á honum, og lagaði það“. Um nónbil þennan sama drottinsdag hvíldi Hjálmar skáld frá Bólu örendur í rúmbálki sínum. Yfir liðinn líkama hans signdu tveir fátæklingar, góðhjartaðir en svo afskiptir veraldargengi, að sóknarprestur lét vera að telja þá til lifandi manna.

(s. 144 - 145, 1. bindi)