Missir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Undirtitill er stuttsaga.

Bókin var fyrst gefin út í kilju vorið 2010 og síðar sama ár í þúsund tölusettum og árituðum innbundnum eintökum. Með því verki fylgir geisladiskur með upplestri höfundar á sögunni.

Af bókarkápu:

Hvert leitar hugurinn þegar komið er á leiðarenda og fátt er fram undan nema eilífðin sjálf? Til liðinnar tíðar ... sem geymir misfagrar minningar.

Hér fjallar Guðbergur Bergsson á óvæginn og ögrandi hátt um uppgjör einmana manns við tilveru sína, ástina eða ástleysið sem nær yfir mörk lifs og dauða - og ellina. Það hlutskipti sem allra bíður þegar líkaminn hrörnar og þrekið þver.

Úr Missi:

Ég sef aldrei. Ég vaki ekki heldur. Ég sé sjálfan mig liggja í rúminu milli svefns og vöku.
Vatnið suðar í katlinum.

Þegar hann vaknar á morgnana liggur hann kyrr um stund. Áður en hann fer að sofa undir morgun stingur hann töppum í eyrun og tekur inn svefnlyf.
Hann starir út í loftið, næstum eins og dauður.
Innan skamms fara augun að flökta. Þá fálmar hann að náttborðinu, rekst á klukkuna og lítur á hana. Eftir það sígur á hann mók. Innan skamms bærir hann aftur á sér og gýtur augunum í kringum sig. Hann lítur á klukkuna, óviss um hvort núna sé kominn dagur eða nótt.
Augun eru á flökti.
Hann tekur ekki tappana úr eyrunum og heyrir þess vegna ekkert hljóð.
Það sem hann sér hefur verið í kringum hann á áratugi, samt áttar hann sig ekki á hvar hann er staddur. Það tekur hann langan tíma. Að átta sig skiptir í raun engu máli. Það eina sem hann skynjar er að hann er innantómur. Hann er hættur að vera svangur. Hann er bara tómur að innan af vanlíðan yfir engu sérstöku. Allt rennur saman í þrekleysi, syfju og þögn. Þrátt fyrir magnleysið langar hann ekki að deyja. Hann er haldinn óljósri lífsþrá sem er fremur vani en löngun til að lifa.
Hann er þurr í munninum en finnur ekki vatnsglasið hjá klukkunni á náttborðinu. Þá gleymir hann glasinu og þorstanum. Svo ropar hann: „Nú hefur losnað um eitthvað.“ Um hugann fer ekki beinlínis hgusun. Síðan berst önnur tilfinning: „Það þarf að losna um meira.“

(s. 9-10)