Míramar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990


Skáldsagan Miramar eftir Nagíb Mahfúz.

Úr Míramar: 

Í djúpum svefni á týndum stundum næturinnar hafði mig dreymt dauða föður míns. Ég sá þá bera líkið útúr bogagöngunum á mosku Sídís Abdús el-Abbasar, þarsem dauðinn hafði vitjað hans, og fara með það heim. Ég var grátandi og heyrði sorgarkvein móður minnar, og þau héldu áfram endalaust uns ég lauk upp augum. Hamingjan góða, hvað gat verið að gerast útifyrir? Var það sama sagan aftur? Gistiheimilið var orðið að vígvelli, þó allt væri um garð gengið í það mund sem ég kom útúr herberginu.
 Þegar Maríana sá mig, kom hún hlaupandi. Nei! Nei! Fari þau öllsömul norður og niður! æpti hún þegar við vorum komin inní herbergið mitt. Ég horfði á hana undan þungum augnalokum og hlustaði á sögu hennar. Hún hafði vaknað við óm af slagsmálum og farið framá ganginn þarsem hún sá Sarhan el-Beheirí og Hosní Allam skiptast á hnefahöggum.
 Hosní Allam?
 Já, hversvegna ekki? Þeir eru allir bandóðir.
 En hversvegna?
 Greinilega hefur eitthvað gerst sem ég varð ekki vitni að. Ég var líka sofandi.
 Hvað um stúlkuna?
 Zóhra segir að Hosní hafi komið heim dauðadrukkinn og reynt að ...
 Nei!
 Ég trúi henni, Monsieur Amer, sagði Maríana.
 Það geri ég líka. En Hosní virtist ekki hafa neinn áhuga á henni.
 En við getum ekki fylgst með öllum sköpuðum hlutum, Monsieur Amer. Hvað sem því líður, þá vaknaði Sarhan í tæka tíð. Hversvegna þarf þetta að gerast? Hún nuddaði á sér hálsinn einsog til að strjúka burt sársauka hrópanna. Nei, sagði hún aftur, fari þau öll norður og niður.
 Í öllu falli, sagði ég gramur, verður Hosní að fara.
 En hún ansaði því engu; henni virtist hreint ekki geðjast hugmyndin og gekk út með þungan áhyggjusvip.
 Þegar Zóhra kom til mín síðdegis horfðumst við einfaldlega í augu.
 Mér þykir leitt að þú skulir hafa lent í öllu þessu stímabraki, Zóhra.
 Þeir eru engir heiðursmenn.
 Sannleikurinn er sá, að þú ættir ekki að vera hér.
 Ég get alltaf varið mig. Og það hef ég gert.
 En þeir láta þig ekki í friði. Það er ekki rétt að góð stúlka einsog þú skuli búa hérna.
 Það eru alstaðar rottur. Jafnvel í þorpinu okkar.

(s. 57-59)