Minnisbók

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007

Úr Minnisbók:

Hlaupið fyrir horn

Ég var að flýta mér að komast í metró, þetta var í janúar meðan ég bjó á Baðhótelinu, hljóp niður Delambre-götu og snaraðist fyrir hornið hjá Dome á mikilli ferð, rakst harkalega á eitthvað sem reyndist vera lágvaxinn maður, ég fékk hann beinlínis í magann, höggið talsvert, við hrösuðum báðir, réttum okkur samt jafnharðan upp, þá sá ég hvern ég hafði hlaupið um koll: Jean-Paul Sartre.
Hann dustaði af sér kurteislega.
- Afsakið Monsieur, sagði hann svo með sinni grófu, útreyktu rödd, minnti á Megas.
Pardon. Það var það eina sem hrökk upp úr mér, ég hefði feginn viljað koma skýrari afsökun til skila, þetta var virkilega mér að kenna en það var of seint, hann hafði snarast af vettvangi.

(bls. 82)