Milljón steinar og Hrollur í dalnum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1999
Flokkur: 


Úr Milljón steinum og hrolli í dalnum:

Einu sinni fyrir óralöngu bjó gömul kerlingarskrukka hér í Skessudal ásamt tveimur uppkomnum sonum. Bær kerlingar stóð þarna úti á klettinum við ána. Synirnir, Ormur og Loftur, sáu vel um móður sína. Þeir veiddu lax í ánni, sóttu silung í Djúpavatnið, hugsuðu um nokkrar rolluskjátur, eina mjólkurkú og fáeinar hænur.
   Þau mæðgin höfðu það bara nokkuð gott, en á meðan synir kerlingar sáu um búið sinnti hún sínum hugðarefnum. Bræðurnir voru ekki hrifnir af áhugamálum hennar. Þeir báðu hana þráfalt að láta af galdragrúskinu og hjálpa heldur til við bústörfin.
   Afi settist upp í rúminu, varð dularfullur á svip og starði út um gluggann eins og hann sæi kerlingu bregða fyrir við rústirnar niðri á Huldukletti. 
   Hún var sögð rammgöldrótt og haft var fyrir satt hér í sveitinni að hún kynni fuglamál, sagði afi og pírði augun. Sumir töldu sig hafa séð kerlingarnornina sitja á þingi með hröfnum á kvöldin á holtinu hér ofan við bæinn og gargaði hún engu minna en krummaskammirnar. Að næturlagi sat hún löngum stundum niðri við Galdratjörn og fór með gamlar þulur. Sagt var að hún kallaðist á við kölska sjálfan niður um botn tjarnarinnar. Þá var sagt að það kraumaði oft í tjörninni og stigu upp af henni heitar gufur þótt þar hefði aldrei verið jarðhiti, sagði afi þungur á brún. Hún var illa þokkuð í sveitinni og einhverjir sögðu að hún hefði selt skrattanum sálu sína fyrir gamla og gulnaða galdraskræðu með uppskriftum að illum verkum.
   Álfadrottningin sem bjó í Huldukletti, með átta álfabörn, var ekki ánægð með nábýlið við kerlinguna. Hún vorkenndi auðvitað piltunum að eiga þessa norn að móður. Það fóru litlar sögur af samskiptum kerlingarnornarinnar og álfkonunnar í klettinum, en sennilega hafa þær reynt að vera sem minnst fyrir hvor annarri.
   Synir kerlingar voru prúðir menn og ljúfir. Þeir voru vinnusamir, og þótt þeir væru ekki málgefnir voru þeir hjálpsamir og alltaf tilbúnir að ferja ferðafólk yfir ána neðan við Hulduklett. Bræðurnir Loftur og Ormur voru hagleikssmiðir og höfðu smíðað litla bátskænu sem þeir ferjuðu sveitunga sína á yfir Ferjuhylinn. Jafnvel í verstu veðrum fóru þeir með menn, skepnur og varning yfir beljandi mórauðan strauminn, því þótt áin sé oftast tær og falleg getur hún breyst í skaðræðisfljót á skömmum tíma.

(s. 37-39)