Milli skinns og hörunds

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984
Flokkur: 

Frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1984.

Úr Milli skinns og hörunds:

10. mynd

Halla og Ásta

HALLA: Ég held satt að segja að hann Guðmundur sé eitthvað alvarlega veikur. Hann er orðinn svo þúngur. Dregst ekki orð uppúr honum. Ég hríngdi í lækninn í dag, en hann vildi auðvitað ekkert viðurkenna. Ásta, þið ættuð að fara að kíkja austur. Það gæti orðið gaman. Nóg er plássið. ÁSTA: (Nú fyrst augliti til auglitis) Leiðist þér ekki allan daginn í þessu stóra húsi?
HALLA: Guðmundur kemur nú bæði í mat og kaffi. Svo þarf maður að halda öllu hreinu. Það er ofboðslegt ryk sem sest á allt.
ÁSTA: Ryk? Hvaða ryk? Er ekki búið að malbika?
HALLA: (Æst) Það er einsog rykið hafi ekkert minnkað við það. Ásta, heldurðu að þú komir ekki austur í sumar?
ÁSTA: Afhverju erum við ekki að busla í sjónum einhversstaðar?
HALLA: Í sjónum?
ÁSTA: Á sólarströnd. Vindurinn er heitur. Við erum allsberar.
HALLA: Kallalausar?
ÁSTA: Við höfum nú ekki mikið að gera við þá allsberar. Við getum synt lángt út, því sjórinn er spegilsléttur.
HALLA: Ég er ekki synd Ásta.
ÁSTA: (Undarlega árásargjörn) Þú lætur þig þá bara fljóta! (Grípur í Höllu) Halla, förum, drífum okkur!
HALLA: (Slítur sig af Ástu) Við getum hugsað um það þegar þið komið austur.
ÁSTA: Förum við þá ekkert að synda í volgum sjónum?
HALLA: Guðmundi þætti voða gaman að fá Sigga. Þeir gætu spjallað um heima og geima.
ÁSTA: Ég er víst heldur ekki synd.
HALLA: Við mundum senda kallana út að kaupa í hádegismatinn. Svo getum við setið í makindum við gluggann og fylgst með því þegar vélin kemur að sunnan. Ég er með kíki tilað sjá hverjir koma með henni. Stundum sveimar hún yfir og getur ekki lent. Það er alltaf dálítið spennandi; hún gæti hrapað fyrir augunum á okkur Ásta!

(s. 38-39)