Mér er skemmt

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010

Um bókina:

Einar Kárason segir sögur úr eigin lífi, dramatískar sögur af brogaðri skólagöngu sinni og félagsmálastússi á fullorðinsárum, gráthlægilegar sögur af afskiptum sínum af kvikmyndum, sögur af „jólunum á Hrauninu“, misjafnlega þroskavænlegri sumarvinnu og köttunum sínum fjórum.


Úr Mér er skemmt: Æviskáldsögur

Jólin á Hrauninu

Á tæplega tuttugu ára tímabili var ég næstum fastagestur í árlegum menningarferðum Bubba Morthens austur að Litla-Hrauni. Hann heimsótti fangelsið á aðfangadag og hélt þar samkomu fyrir fangana, tók með sér listamenn af ýmsu tagi, mest tónlistafólk og rithöfunda, og ætli ég hafi ekki flotið með samtals svona tólf eða fjórtan sinnum. Að minnsta kosti svo reglulega að dætur mínar voru einhverntíma spurðar hvernig jólahaldi yrði háttað á þeirra heimili og þá svöruðu þær, örlítið mæðulega: „Ja, pabbi verður líklega á Hrauninu eins og vanalega.“
Í fyrsta sinn eftir að það kom til tals var dálítið undarleg tilhugsun að vera að fara á Litla-Hraun á þessum degi. Það mun hafa verið 1990, þá var ein af metsölubókum Máls og menningar saga Bubba sem Silja Aðalsteinsdóttir skráði, og þótt ég sjálfur væri ekki með neina bók á markaðnum það árið kom ég oft á forlagið eins og jafnan fyrr og síðar og skömmu fyrir jól hitti ég þar Bubba sem spurði hvort ég myndi ekki slást í hópinn í næstu ferð; hann hafði þá þegar farið reglulega á þennan stað á umræddum degi um nokkurra ára bil.

...

Í fyrstu ferðunum var samkoman sem við héldum alltaf í setustofu fangelsisins í gamla húsinu, þetta var hjarta stofnunarinnar og við eiginlega komnir inn á heimili fanganna. Og að sama skapi allt mjög persónulegt, maður sat þarna hjá þeim, heilsaði og kjaftaði – þetta átti allt eftir að breytast með nýjum agareglum og nýjum byggingum og verða heldur fjarlægt og kuldalegt. Við vissum að þarna í fyrstu heimsóknunum austur þegar ég var með þá var föngum sem voru í einangrun vegna agabrota stundum sleppt út í tilefni af jólaskemmtuninni. Líka kom fyrir að þeim var haldið á sinni einangrunardeild en okkur hleypt inn til þeirra til að taka styttri útgáfu af okkar prógrammi fyrir svörtu sauðina.

...

Ég átti eftir ða finna að menn voru þakklátir fyrir þessar heimsóknir. Ef ég var staddur í bænum að kvöldlagi þá voru alltaf að svífa á mig allskyns skúmmel náungar og þrýsta hönd mína lengi og þakka fyrir síðast. „Hvaðan þekkirðu þennan?“ spurði konan mín jafnan. „Af Hrauninu,“ sagði ég.

(bls. 74, 87, 90)