Mensalder

Mensalder, Bjarni Harðarson
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Selfoss
Ár: 
2012
Flokkur: 

um bókina

Haustið 1933 gengur miðaldra maður yfir mýrarsund í Holtunum. Hann er loks farinn frá æskuheimili sínu í Ranakoti til unnustunnar sem hefur beðið hans í þrjá áratugi.

Hér segir frá kotbóndanum Mensalder Raben Mensaldersyni og fóstru hans Margréti Jónsdóttur sem er tveggja álna uppkreistingur ofan af Landi. Manga, vinkona hennar Imba slæpa og heimasætan Gunna í Húsum eru líkastar vættum þessa lands. Þær eru eldri brunanum úr Heklu og samt ástgyðjur Mensanna í Ranakoti.

Saga Mensalders teygir sig inn í nútímann og sjálfur verður hann afrak af annarri öld. Unnustan er komin í kuðung og Húsbóndinn keyrir heyi sínu heim í hjólmöbrum. En hann er skuldlaus hamingjumaður sem veit að miðja heimsins er hvergi frekar en einmitt hjá honum.

 

úr bókinni

Enginn kallaði hann lengur Litla-Mensa enda ekki öðrum til að dreifa. Hann var vaxinn maður og vel stór á sinni tíð, svolítið mæddur á svip, siginaxla, smánefjaður, hýreygur og góðlegur. Og nú sem arftaki í Ranakoti varð hann að takast á h endur þær skyldur sem faðir hans hafði haft. Hann bjó sig í haustferðina með smálegar búsafurðir á klakki og stakk inn á sig hnakkpeningunum.

Niður á Eyrarbakka drakk hann sig fullan í tvo daga og hélt svo hreyfur austur í fylgd sveitunga og Uppholtahyskis sem hann kunni lítil skil á. 

- Á ekki að koma við á bæjum, Mensalder?

- Það held ég hafi nú verið komið á bæi í dag, við höfum tafið á einum fjórum og þú hefur kysst þær allar, heimasæturnar og vinnukonurnar sem þú hefur komið höndum yfir.

- Það var í Flóanum, kallinn. Nú verðum við að koma að Húsum. 

Það vissi það greinilega öll sveitin að þau Gunna höfðu talast við. Hvað hafði hann ekki oft hugsað um það í haust að skreppa þessa bæjarleið en svo slegið því frá sér. Einn daginn var klárinn hálfvitlaus lengst suður á mýrum og lét ekki ná sér, þann næsta varð honum hugsað til þess hvað hnakkpútan föður hans var orðin úr sér gengin. Gangandi færi hann ekki.

Nú var hann ríðandi í flunkunýjum hnakki og átti á gleri. Gamli kúturinn hans pabba var fleytifullur af landa ofan úr Flóagafli og í vasanum var hann með blátt bólugras, fullt af því sama. Ha,ha. Auðvitað hafði hann ætlað að Húsum en helst einn. Hvað þurftu þessir slöttólfar að elta hann þangað? Jæja, það varð að fara sem færi.

Gunna skeytti engu hvað hlegið var. Hún gekk rakleitt að Mensa sínum og rak honum koss þar sem hann lötraði heim traðirnar.

- Á ekki að kyssa okkur bræður líka, sagði Óli í Pulu hlæjandi. 

- Ykkur, ég hef aldrei séð ykkur áður og reyndar ekki séð svona ljóta menn hér áður í Kálfholtssókn. Held þeir séu nú bara ekki til, en komiði sælir og gangið í bæinn. Ef þið eigið tár þykir Einsa bróður áreiðanlega gaman að sjá ykkur.

_____

- Ég var kostbær í Húsum, gat vaðið í kvenfólki, vaðið í kvenfólki og valið úr, valið úr. Í Húsum, fóstra mín, sagði Mensalder þegar hann hafði vakið Möngu upp með bægslagangi undir morgun. Hann hlammaið sér niður, þessi stóri maður sem fyltti út í litlu baðstofuna, og fóstran horfði á hann í morgunskímunni.

- Og það voru flysjuð ofan í mig eggin og ég gat valið úr, valið úr.

- Nú, nú og hverja valdirðu þá svo, sagði Manga og bilaði aðeins í hugaræsingi sem fóstursonurinn olli henni. Faðir hans rétt kólnaður í gröfinni og hann lagstur í kvennafar og fyllirí. Já og hverja valdirðu svo, skömmin þín, endurtók hún þegar stóð á svari.

- Ja, flissaði hann fánalegur út í loftið eins og langdrukknir menn einir geta. Varð svo alvarlegur og sagði:

- Það var hún Gunna.

- Það var þá úrval, hálfvitlaust helvíti og skammastu til að fara að sofa. 

(s. 129-130)