Meðan skútan skríður

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Meðan skútan skríður:

 Þetta eru örugglega sömu smyglaraólarnir og í Móseðe,” hvíslaði ég og Beggi samsinnti því. Við læddumst beint inn að gamla tankinum. Hann var sívalur, álíka langur og ég og náði Begga í mitti, kolryðgaður og að hluta til steyptur niður í gólfið. Allur annar endinn var eitt lok boltað fast með mörgum skrúfboltum, líka ryðguðum. Lalli Spæjó skoðaði hvern bolta vandlega. Flestir voru með hausinn að utan en þrír sneru hinsegin, boltinn sjálfur út úr járninu og hert að með ró. Þeir voru líka ryðgaðir en Spæjó sá ekki betur en tveir þeirra væru dekkri, eins og lásinn úti, kannski væri olía á þeim líka. Yfir annan lá stór kóngulóarvefur. Við vorum sammála um, að það væri undarlegt að vera kónguló hér, varla veiddi hún margar flugur. Og það var engin kónguló í vefnum! Beggi tók varlega í hann. Hann losnaði frá í heilu lagi, og Beggi sagði hlæjandi að hérna ættu plastkóngulærnar heima. Já, vefurinn var sko ábyggilega úr plasti! Ég tók á eini rónni en gat auðvitað ekki hreyft hana. En við eigum báðir siglingahníf með melspíru og græjum til að opna keðjulása og bjórflöskur! Beggi prófaði sinn á róna, já, hann gat skrúfað hana af! Þá losnaði endalokið frá öðrum megin! Hinir boltarnir voru bara plat, nema annar bolti eins hinum megin. Við losuðum hann líka og lýstum inn. Tankurinn var tómur, en hann var opinn í botninn! Við gripum hvor í annan. Það lá brattur járnstigi ofan í rúmlega mannhæðardjúpan kjallara með múruðu gólfi. Við sáum hluta af gömlu borði og þrjá járnstóla. Ég var svo æstur að ég gat varla talað.
 ,,Þarna geyma þeir smyglið, eiturlyf og allt,” sagði ég andstuttur.
 ,,Komum niður og gáum.”
 ,,Heldurðu að það sé óhætt?” hvíslaði Beggi. ,,Við skulum segja Skabba frá þessu og lögreglunni.”
 ,,Það þýðir ekkert. Hann trúir okkur ekki og löggan ekki heldur. Við verðum að finna sannanir.” Beggi tautaði að lokið væri níðþungt og hann setti það aftur upp á boltann.

(s. 61-62)