Með sumt á hreinu : Jakob Frímann Magnússon lítur um öxl

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011

Um bókina:

Jakob Frímann Magnússon á sér mörg andlit og mörg gervi og kringum hann er alltaf líf og fjör. Hér dregur Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir hins vegar fram annan Jakob – mýkri og alvarlegri.

Það vantar ekki góðar sögur. Ljúfar stundir hjá afa og ömmu á Akureyri kvikna og uppvöxturinn hjá „músíkölsku pari“ í Hlíðunum meðan allt lék í lyndi, menntaskólaárin í MH þar sem til varð skrýtin skólahljómsveit – Stuðmenn – sólskinsstundir í LA , sveiflan í London.

Jakob rekur af hispursleysi sára örlagasögu móður sinnar, talar um konurnar í lífi sínu, segir frá félögunum í Stuðmönnum, sköpunargleðinni, árekstrunum og vináttunni. Og hér eru raktar ráðgáturnar í lífi Jakobs þar sem sumt er komið á hreint – en annað ekki.

Úr bókinni:

Hart var lagt að okkur Stuðmönnum að vera með í Eurovision en Ragnhildur sagði ákveðin:

- Over my dead body.

Við vorum henni innilega sammála. Eurovision var ekki fyrir famsækna músíkanta þá frekar en nú, þótt umbyrðarlyndi gagnvart fyrirbærinu hafi aukist með árunum. Ljóst er að við vorum engin ABBA. Metnaðarfullir popparar töldu þátttöku í Eurovision ekki bæta ímynd sína.

Við héldum jú til Spánar með eiginkonum og börnum til þess að auka samstöðu í stórfjölskyldu Stuðmanna eftir Kínaferðina. Þar myndaðist hins vegar sprunga sem átti eftir að stækka. Pólarnir voru Valli og Þórður og pirringur þeirra á milli átti sér djúpar rætur. Strax á MH-árunum lét Þórður Valla fara létt í taugarnar á sér. Einhverju sinni heimsóttum við Valgeir Þórð, sem var nýbúinn að kaupa sér rafmagnsgítar. Valgeir tók nýja gítarinn án þess að spyrja og tók að spila. Virtúósinn Þórður kunni þessu illa, fór út í búð, keypti ís, setti í skóna okkar og rak okkur út.

Enn var þetta þó allt smávægilegt, og sannast þar í þúsundasta sinn máltæki um hlass og þúfu. Við vorum sem oftar úti að borða á Spáni. Ásta hafði bókað borðið og var í gjaldkerastellingum að yfirfara reikninginn, vildi til þæginda ein sog ofól oft gerir skipta jafnt. Bubbi og Bynja voru með, þetta var mikill hópur með börn og buru. Þórður vildi skipta nákvæmar. Þórður getur verið hvass og hreytti í Ástu að hann vildi ekki greiða annarra manna veitingar. Þetta var örlítil birtingarmynd af stærri sambúðarvanda, þótt smár væri enn og færi leynt hafði pirringur hlaðist upp. Engan grunaði þó að stefnt gæti í skilnað.

Á þessum tíma var Valgeir formaður FTT og STEFS, eins og ég er núna, og mjög virkur lagahöfundur. Komin var nokkuð föst hlutverkaskipan í hljómsvetiinni, kannski fullstíf og afdráttarlaus miðað við að hæfileikar leyndust víða. Valgeir leit æ meira á sig sem Lagahöfundinn, Egill væri Frontmaðurinn fyrst og fremst og ég Reddarinn. „Kobbi reddar þessu, Egill syngur það og ég sem það“, var orðið nokkuð fast viðkvæði hjá Valgeiri og hann var drífandi með sitt forystusauðseðli. Þergar hljómsveitin byrjaði tíu eða fimmtán árum fyrr var þessi sérhæfing ekki til. Allir sömdu, redduðu og sungu.

(254-5)