Með öðrum orðum : Ljóðaþýðingar 1956-1995

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995

Úr Með öðrum orðum:

Musée des beaux arts (W. H. Auden)

Um þjáninguna gengu þeir aldrei í grafgötur,
gömlu meistararnir, hversu vel þeir skildu
mennska stöðu hennar; hvernig hún á sér stað
meðan einhver annar er að matast eða opna glugga eða bara eigra um;
hvernig gamlingjar bíða fjálgir, ákafir
eftir undursamlegum barnsburði, en þá sjást ævinlega börn
sem voru ekkert sérlega sólgin í undrið
og skautuðu á tjörn við skógarjaðarinn:
Þeir gleymdu aldrei
að jafnvel geigvænt píslarvætti verður að hafa sinn gang,
allavega í einhverju horni, á einhverjum subbulegum reit
þarsem hundarnir stunda sitt hundalíf og hross pyndarans
klórar sér í hrekklausum gumpnum bak við tré.

Til dæmis í Íkarosi Bruegels: hvernig hvaðeina snýr sér
í mestu makindum frá slysinu; plógmaðurinn kann
að hafa heyrt guslið, hjálparvana hrópið,
en fyrir honum var þetta ekki stórvægilegt óhapp; sólin skein
einsog henni bar á hvíta fótleggi sem hurfu í grænt
vatnið; og verðmætt veikburða skipið, sem hlaut að hafa séð
furðusjón, pilt sem féll af himnum ofan,
það þurfti að ná til hafnar og sigldi leiðar sinnar stillilega.