Með hálfum huga : Þroskasaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997

Úr Með hálfum huga

Klukkan sjö að morgni mánudagsins 11ta júní 1951 lagðist Abbazia við bryggju í Píreus, hafnarborginni fornfrægu sem sjötíu árum fyrr hafði ekki verið annað en tveir eða þrír fiskimannakofar en var nú ein helsta hafnarborg Miðjarðarhafs með 250.000 íbúa. Þráttfyrir brennandi sólskin og óbærilega hitasvækju var lífið við höfnina þrungið ys og þys, hrópum og hlátrasköllum, skvaldri og vélardrunum. Burðarkarlar og hafnarverkamenn snerust hver um annan, formæltu og munnhjuggust og skiptust á sígarettum í næstu andrá. Langflestir voru þeir svartskeggjaðir á efri vör að aldagömlum sið Balkanþjóða. Vegabréfaskoðun, tolleftirlit og myntskipti tóku drjúgan tíma meðþví Grikkir eru engir eftirbátar annarra suðrænna þjóða í skriffinnsku og rósömum vinnubrögðum.

Um síðir var öllum formsatriðum fullnægt og ég steig í fyrsta sinn fæti á gríska grund umleikinn birtu sem var í ætt við himneskan töfraljóma. Á einhvern dulrænan hátt var sem ég væri horfinn aftur til björtustu daga bernskunnar þegar allir hlutir voru í senn skírir í útlínum og bjuggu yfir launhelgum merkingum. Þessi tilfinning átti eftir að ágerast við nánari kynni af landinu. Ég var alltíeinu orðinn milljónamæringur og átti satt að segja í stökustu vandræðum með að koma peningunum fyrir. Í einni íslenskri krónu voru um 1000 drökmur og stærstu seðlar 20.000 drökmur. Grísk mynt hafði fallið svo geigvænlega í verði árin á undan að til stórvandræða horfði. Var ekki óalgengt að sjá menn á götum úti með seðlabunka allt uppí metra á hæð. Samt var þetta hátíð hjá ástandinu á hernámsárunum þegar milljón-drökmu seðlar voru tæplega verðir þess að notast í veggfóður.

Á bryggjunni tók á móti okkur pílagrímum hópur æskufólks sem átti að liðsinna okkur og leiðbeina fyrstu sporin. Farangrinum var staflað á vörubíl, en sjálf fórum við með sporvagni skamman spöl að endastöð lestarinnar til Aþenu. Þaðan tókum við strætisvagn uppað klaustrinu Móní Petrakí í hlíð keilulaga hæðar sem nefndist Lýkabettos. Klaustrið var öðrum þræði stúdentagarður og átti eftir að koma mjög við sögu mína. Þarna áttum við að búa meðan dvalist væri í Aþenu. Lenti ég í herbergi með Þjóðverja, Frakka og Rússa. Við fyrstu kynni var viðmót ungu Grikkjanna sem leiðsögðu okkur svo alúðlegt og viðfelldið að mér kom til hugar að þeir hefðu verið sérþjálfaðir til starfans. Svo var þó hreint ekki; framkoman var þeim fullkomlega geðgróin. Gestrisni og örlæti reyndust vera djúprættar eigindir í fari nálega allra Grikkja sem ég hafði kynni af. Vel má vera að ástandið í landinu og undangengnar þrengingar hafi glætt þennan geðþekka eiginleika: landsmenn þyrsti í nánari kynni við útlendinga. En hitt er jafnsatt að gestrisni (fílóxenía) hefur verið snar þáttur í dagfari Grikkja frá örófi alda, að minnstakosti frá dögum Hómers.

(s. 71-2)