Með fiðring í tánum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Með fiðringi í tánum:

Rétt áður en rútan lagði af stað kom stelpa hlaupandi að rútunni í fylgd móður sinnar og var þeim mikið niðri fyrir. Bjössi fór út og átti einhver orðaskipti við móðurina. Hann tók við ferðatöskunum og fylgdi stelpunni svo inn í rútuna. „Ætli það sé ekki best að þú sitjir fremst hjá honum Kidda. Hann er að fara í sömu sveit og þú.“ Bjössi fylgdi stelpunni til sætis og setti handtöskuna hennar í grindina fyrir ofan sætið. „Önnur sæti eru hvort sem er upptekin.“ „Halló,“ sagði stelpan þegar hún settist við hlið Kidda. Hann svaraði á sama hátt en hann þorði ekki að mæta augnaráði hennar. Þegar stelpan hljóp í áttina að rútunni hafði Kiddi tekið eftir að hún var svakalega sæt og varð þess vegna enn feimnari. Útvarpið var lágt stillt og vegna skvaldurs í farþegunum heyrðist aðeins ómur af tónlistinni. Kiddi sat stífur í sætinu og fylgdist grannt með umferðinni. Hann þorði ekki að líta til hliðar því hann sat svo nálægt stelpunni að hann óttaðist að mæta augnaráði hennar. Kiddi uppgötvaði fljótt spegil fyrir ofan framrúðuna sem bílstjórinn notaði til þess að fylgjast með farþegunum. Hann sá stelpuna mjög greinilega í speglinum þegar hann hallaði höfðinu aftur og laumaðist til að virða hana fyrir sér þegar lítið bar á. Hún var með sítt ljóst hár og stór augu. „Hún er eiginlega eins falleg og prinsessa í ævintýrabók,“ hugsaði Kiddi með sér. Hann mundi hreinlega ekki eftir að hafa séð fallegri stelpu. (s. 29-30) „Ég heiti Sóley Markúsdóttir,“ sagði stelpan skyndilega og rétti Kidda höndina. „Kiddi. Kristinn Jóhannsson. Oft kallaður Kiddi varamaður.“ „Ha, Kiddi hvað?“ spurði Sóley undrandi. „Nei, ég var bara að gera grín að mér af því að ég er svo lélegur í fótbolta,“ sagði Kiddi og sá strax eftir því að hafa reynt að vera fyndinn á eigin kostnað.

(s. 31)