Matthías Johannessen : ritþing 9. nóvember 2002

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007
Flokkur: 

Úr bókinni:

Það sem um er að ræða þarna er að ef maður ætlar að skrifa ritgerð þá skrifar maður ritgerð. En ef maður ætlar að segja eins mikið og maður getur þá gerir maður það emð ljóði með vísunum, með skírskotunum, og þá eins og ég nefndi áðan að Borges hefði talað um: „Þú skalt bara skírskota í arfleifðina eins og þér sýnist“.

Staðreyndin er sú að þetta er mín menntun, mitt háskólanám, ég er handgenginn þessari menningu. Meðan Þór er í Útgörðum austur þá er ormurinn á sínum stað. Ég var meðal annars að hvetja til þess að menn litu á orminn í eigin brjósti á sama tíma og þeir væru með hugann við Þór og hamarinn hans, eins og talað er um í öðru ljóði í Hólmgönguljóðum. Þarna er útsýni yfir það sem maður sér og upplifir, og líka það sem er hér inni fyrir í þessari hauskúpu sem ég hef talað um áður.

Rætur þess sem ég las eru í umhverfi sem ég kynntist ungur blaðamaður í Berlín í sambandi við uppreisnina þar. Ég upplifði hana og síðar Berlínarmúrinn mjög sterkt, en það var á tímum sem nú eru horfnir og skipta ekki máli lengur. Maður á ekki að vera með neina fortíðarhyggju eða löngun til að skilja allt sem gerðist, þótt hægt sé að nota arfleifðina sem skírskotun í okkar tíma. Við getum t.d. nú talað um Bosníu eða Ísrael, því miður, og önnur nærtæk dæmi um hörmungar.

Til þess að þurfa ekki að skrifa langa ritgerð þá get ég sagt það sem ég ætlaði að segja með skírskotun í Þór, í goðsögulega atburði sem eru inngrónir í blóð okkar og við ættum í raun og veru öll að skilja.

(21)