Marsibil

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Um bókina:

Marsibil Jónsdóttir yngri elst upp hjá föður sínum í Reykjavík en vestur á fjörðum býr amman, Marsibil Jónsdóttir eldri, og hefur ekki komið suður í 60 ár. Feðginin eru fyrir vestan jól og sumur. Ekkert virðist geta raskað notalegum tilverutakti þeirra. Sumarið sem Marsibil er tólf ára fer Dóri vinur hennar með henni vestur. Ýmislegt kemur honum spánskt fyrir sjónir - en margt kemur Marsibil líka á óvart þetta örlagaríka ár sem sagan spannar. Eins og gáta sem er leyst opnast leyndardómar heims hinna fullorðnu fyrir henni og eftir það verður ekkert eins og áður.

Úr Marsibil:

 Góða leyfðu honum að vera.

Veturinn leið án þess að nokkuð merkilegt gerðist. Ég heimsótti mömmu þrisvar og sá nýja kærastann hennar í eitt skiptið. Hann heitir víst Sumarliði. Ég er löngu hætt að gista hjá mömmu, það er ekkert nema vesen.
 Dóri róaðist lítið. Eftir mikla eftirgangsmuni samþykkti Stína að hann færi með okkur vestur, sennilega vegna þess að hún var orðin langþreytt á honum. Ekki bætti úr skák að Ella, systir Dóra, kom sér upp kærasta, eins og amma myndi orða það. Hann var atvinnulaus og ekki í skóla, en hélt til í herberginu hennar Ellu. Stína rak hann heim til foreldra sinna um líkt leyti og við fórum vestur, strax eftir skóla. Dóri átti að fá að vera í tvær til þrjár vikur til reynslu. Stína hélt að við myndum ekki endast til að hafa hann lengur.
 Dóri hafði lítið ferðast um landið og tók ekki eftir neinu sérstöku á leiðinni vestur, nema þegar hann varð sjóveikur á Baldri yfir Breiðafjörð. Pabbi fór með hann upp á dekk og sá til þess að hann ældi í sjóinn. Skipið var að fara fram hjá einni af ótal eyjum á firðinum. Dóri sá fólk í eyjunni og spurði hvort þetta væri fangaeyja! Hann var fölur og sjóhræddur þótt hann vildi ekki viðurkenna það. Hann hresstist fljótlega eftir að við komum í land og var sæmilega brattur þegar við renndum í hlað á Bakka hjá ömmu.

(s. 88 - 89)