Markús Árelíus flytur suður

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Myndir: Ólafur Pétursson.

Úr Markús Árelíus flytur suður:

 Þegar ég kom á staðinn voru þrír kettir að snudda í kringum Hermínu. Án þess að hika eitt andartak, stofnaði ég umsvifalaust til stórkostlegra slagsmála. Einn kötturinn var svo hraustur að hann gafst ekki upp fyrr en Hermína gekk í lið með mér og hann sá að hann hafði ekki til nokkurs að vinna. Svo harður var hann af sér að ég var allur rifinn og tættur eftir hann og blóð lak í langan tíma ofan í hægra augað á mér. En þetta gerði ekkert til, því við Hermína áttum saman dásamlegar nætur.
 Loks var þessari skemmtun líka lokið og kominn tími til að halda heim á leið. Ég varð bæði hungraður og rosalega þreyttur, en gerði mér ekki grein fyrir því að ég hafði orðið fyrir alvarlegu áfalli, sem mun víst sjást á mér það sem eftir er.
 Þegar ég kom heim að húsinu okkar brá mér heldur betur í brún. Húsið var harðlokað og enginn heima. Ég treysti mér ekki til að bíða og ranglaði suður á lóð til Péturs bróður, lagðist þar undir runna og dormaði fram á dag.
 ,,Hvað er að sjá þig?”
 Ég hrökk upp við þessi orð Péturs, sem stóð yfir mér og glápti á mig.
 ,,Hvað hefur eiginlega komið fyrir þig?” bætti hann við.
 ,,Það hefur ekkert sérstakt komið fyrir mig. Ég er dálítið lúinn og svangur, lenti í lítils háttar útistöðum við kött sem var með múður. Verst að það er enginn heima.”
 ,,Þau eru farin suður,” sagði Pétur.
 ,,Farin suður, án þess að taka mig með? Það getur ekki verið,” fullyrti ég.
 ,,Ó, jú. Þau eru farin, en þú þarft víst ekki að hafa áhyggjur. Það er búið að semja um hvað á að gera við þig.”
 ,,Hvað á að gera við mig?” spurði ég og leist ekki á blikuna.
 ,,Nú, það á að koma þér suður við tækifæri. Heldurðu að Lobbi, kall greyið, geti verið lengi án þín. Það er nú meira bölvað ruglið í ykkur að flytja burt. Það skal ég ábyrgjast að þetta er ein bölvuð dellan í skáldinu. En það eru ósköp að sjá eyrað á þér. Ég er hræddur um að þú hafir ekki fríkkað í þessari reisu. Komdu með mér inn,” sagði Pétur og rölti heim að húsinu.
 ,,Má ég koma inn til þín,” spurði ég undrandi, því mér var alltaf bannað að koma inn til Péturs.
 ,,Já, já. Það eru meira að segja fyrirmæli. Það á að gefa þér að éta,” svaraði hann um leið og við komum inn í forstofuna heima hjá honum.
 Ég gekk beint að skálinni hans Péturs og át það sem í henni var. Jónatan og Elísabet voru bæði heima. Þau höfðu ekkert á móti því að ég kæmi inn. Þvert á móti. Þau lokuðu hurðinni á eftir mér og Jónatan kraup á fjórar fætur við hliðina á mér meðan ég var að éta og glápti á eyrað á mér.
 ,,Eitthvað hefur nú gengið á. Eyrað er að detta af honum,” sagði hann við Pétur.
 ,,Þú þreytist ekki á að koma þér í klandur, Markús bróðir. Af hverjum varstu nú að skipta þér?” sagði Pétur við mig.
 ,,Ég var ekki að skipta mér af neinu sérstöku, lenti bara í smáræðis vandræðum með kött sem var þar sem hann átti ekki að vera,” svaraði ég, en ekki fyrr en ég hafði hreinsað allt upp úr skálinni hans Péturs.

(s. 30-32)