Markús Árelíus

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Myndir: Ólafur Pétursson.

Úr Markúsi Árelíusi:

I. kafli

Markúsi Árelíusi verður á í messunni

Við erum fjögur í heimili í Hrafnahlíð 14, hjónin Ólafur Eiríksson skáld, stundum kallaður Lobbi, og Hildur Einarsdóttir kennari í Barnaskóla Íslands, Begga dóttir þeirra og ég sjálfur. Húsið okkar er mjög þægilegt fyrir kött. Ég stekk auðveldlega upp í alla glugga. Veggirnir úti eru úr timbri þannig að mér verður ekki skotaskuld úr því að klifra upp á bílskúrinn þegar á þarf að halda.
 Begga, sem heitir fullu nafni Berghildur Ólafsdóttir, varð tólf ára í vor. Fullorðna fólkið verður bráðum fertugt. Eftir því sem ég kemst næst hlakkar skáldið til, en Hildur ekki. Hann vill halda mikla veislu, bjóða fjölda manns, en hún segir að sig langi ekki til að halda upp á sitt afmæli. Veislum fylgja bæði kostir og gallar fyrir mig. Í vel heppnuðum veislum fæ ég rjóma eða annað góðgæti, en stundum er ekki boðið upp á neitt slíkt. Þá reyni ég að hafa mig á brott til að losna við gestanauðina.
 Við Pétur bróðir komum í heiminn sama daginn. Þá fæddust líka litlar systur, ein alhvít, önnur hvít og svört og sú þriðja gulbröndótt eins og Pétur. Ég er svartur með hvíta bringu, hvítar tær og hvítan rófubrodd. Systurnar eru löngu horfnar, kannski inn í bæ, upp á Brekku eða niður á Eyri. Pétur flutti til Jónatans og Elísabetar sem búa hérna sunnar í götunni. Það var mikið lán fyrir mig. Pétur er góður vinur minn og auk þess allra katta vitrastur.
 Ef einhver álítur að líf okkar kattanna sé tómur leikur, þá er það mikill misskilningur. Til að vera góður og siðprúður heimilisköttur er nauðsynlegt að kunna flóknar reglur um það sem er leyft og muna allt sem er bannað. Því miður hættir mér til að gleyma fyrirmælum um rétta hegðun. Auk þess eru sumar reglurnar þannig að mér er lífsins ómögulegt að fara eftir þeim. Það er stóri vandinn við líf heimiliskattarins.

(s. 5-6)