Mánasigð

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1976
Flokkur: 

Úr Mánasigð:


Þegar hann gekk sólheitt strætið leit hann oft aftur fyrir sig. Hann sá engan á ferli. Þó sleppti tortryggnin honum ekki. Oft þótti honum einhver fylgdi sér eftir, fæli sig þegar hann leit við. Hann gekk utarlega á gangstéttinni, gluggarnir horfðust á án þess nokkur mannvera sæist líkt og allt væri svo vel skipulagt að allir hefðu á sér vara að láta ekki glitta í sig.
Hann var kominn lagt frá kirkjunni, og nú myndi hitinn í hámarki.
Þá sá hann hundinn fyrst. Honum hugkvæmdist að taka stein og henda honum í öfuga átt í von um að hundurinn elti steininn en yfirgæfi sig. En hundurinn sinnti því ekki, elti hann. Hann vissi ekki hvaðan þessi hundur hefði komið né hversvegna hann fylgdi sér. Það var mjög einkennilegt samband. Þó óttaðist hann ekki að þessi hundur væri sendur til að fylgja sér og koma upp um sig. Hann skeytti því ekki um hann og gaf sig ekki að honum.
Um sinn fóru þeir eftir þröngri götu, og það var auglýsing á vegg. Á henni var mynd af manni með asískum svip sem minnti helzt á japanskan iðjuhöld búinn á bandaríska vísu, með hart blik í augum. Að hverju leitar þú? stóð letrað stórum stöfum. Með enn stærra letri var skrifað: Hamingjunni? Himnesku bræðralagi á jörð og fegurð? Allt þetta fáið þið hjá Ting Sjing Jong doktor Lúna sem auk þess að vera ykkur faðir og móðir er staðgengill Guðs Föður Sonarins og Heilags Anda til að leiða ykkur úr táradal lífsins á ódáinsvelli sælunnar og hinnar himnesku fegurðar og guðdómlegu vináttu sem gerir allt gott og fagurt og gefur ykkur TILGANGINN. Finnst þér þú vera munaðarlaus í lífinu? Komdu þá til doktor Lúna hins ljúfa sem sáir kærleikanum og mæðunni léttir af þér svo þú þarfnast einskis framar því hann gefur þér brauð lífsins og manna sálarinnar, komdu til doktor Lúna hins ljúfa. En hvað augun voru hörð í doktor Lúna og andlitið í senn hart og ísmeygilegt með sínu brosi óbreytanda, og minnti hann á furðumanninn Fú Mansjú úr kynjasögum bernskunnar úr forboðnum hryllisögum sem aldrei varð njörvaður niður, né hlekkjum bundinn án þess að hann leysti sig, og fór gegnum steypta veggi, og hnepptur í logsoðna járntunnu og fór niður háa fossa, og komst úr henni heill, og gat dáleitt með rödd sinni alla þá sem voru ekki nógu forsjálir til að búa sig til fundar við hann með hljóðhelda eyrnatappa. Þá heyrði hann innan úr húsinu sungið: Sérðu landið sæla sæla, sólríkt brosa þér, angur það mun fæla fæla, fjarri sé það hér, annarsstaðar þó sem er, allstaðar og hvar sem er.

(s. 72-73)