Malbikuð hjörtu

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1961
Flokkur: 

Úr Malbikuðum hjörtum:

Tvisvar sinnum tvö orð

Blunda í huga mér tvisvar sinnum tvö orð
í veitingahúsi með rauðvín á borðum
ég nýt þess að skoða flugurnar á glerinu
þar sem regndropar sigldu hraðbátum fyrir skömmu
en nú leiðir sólin mjófættar konur um gólfið
ég les bókina Hvers vegna líta um öxl
glasið biður um fylgd inní greniskóginn
hríslurnar skera jólagleðina í tvennt
þarna er urmull fugla er sveima langnefja og reiðir
yfir vötnum sem mora af þríhöfða silungum - enginn
biður um náð guðs eða annað slíkt
allt virðist leita nýrra sanninda í kjarrinu græna
þangað leiddu mig seiðir vínberjanna
ég ljómaði af skrautljósum skemmtigarða
á brjósti mínu glotti sjöstjarnan fræga
undarlegt að vakna á botni stórfljótsins
kveðandi gamlar bögur
þrumandi yfir hausamótum sjálfs sín
líta fingurna brennda í snæri á næstu trjágrein
hreindýr stökkva á fætur og hyggja á önnur beitilönd
úlfa tvínóna á bakkanum viðbúna miklum atburðum
Ég sat í veitingahúsinu þennan liðna dag
meðan spænskt vor rétti margar hendur
járnbrautarlestinni sem þrammaði fyrir utan
teinarnir bentu í norðurátt - svikin ánægja
þyrlaði gulum kvöldblöðum
hlöðnum minningaratriðum umsvifalaust í buskann

Sofa í huga mér tvisvar sinnum tvö orð

(s. 11-12)