Mærin gengur á vatninu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1962

Neito kulkee vetten päällä eftir Eeva Joenpelto í þýðingu Njarðar.

Úr bókinni:

Þennan dag hélt Helmi sig á hlaðinu. Þetta var langur og erfiður dagur, annað slagið gekk hún spölkorn út fyrir hliðið en sneri aftur í skyndi og settist nokkra metra frá konunni. Hún reyndi að halda niðri í sér andanum og oftast brosti hún blítt en konan leit ekki við henni.

Svo fór að rigna, kom ausandi haustrigning blönduð hagléli. Skýin þutu fram og aftur á himninum og ógnuðu með krepptum hnefum, fýlunni frá verksmiðjunni sló beint niður. Þegar konan leitaði ekki skjóls og hristi ekki einu sinni af sér haglið færði Helmi sig nær.

- Af hverju ertu að grenja, spurði hún.

Konan leit á hana án þess að hreyfa höfuðið, eins og laminn hundur sem vill ekki sættast. Svo byrjaði hún að gráta fyrir alvöru.

- Þegar maður er sjúkur og fátækur og á hvergi höfði sínu að halla. Ég dey bráðum, það veit guð.

en Helmi fannst þetta smámunir. Hún vissi ekki einu sinni hvað það var að vera fátækur, sjúkur og eiga eingan samastað.

- Maður deyr nú ekki svona allt í einu, sagði hún og leit hvasst á konuna sem var nú alveg eins og dauð, aðeins munnur hennar titraði en opnaðist ekki.

- Ég er dóttir Ölmu, sagði Helmi svo því hún hafði tekið eftir því að slíkar upplýsingar gerði fólk venjulega háðslega kátt, kom því til að rísa upp og ganga um og baða út höndunum og tala með æstum, hlæjandi, skrækum röddum. Eftir litla stund kom einnig líf í konuna. Hún losaði hendurnar hvora frá annarri og huldi andlitið með þeim og grét af öllum kröftum.

- Eiga þau nú barn líka, vældi hún skrækróma og í fyrsta skipti kom hljómur í röddina.

- Jahá, svaraði Helmi. Hún tók köngul milli fótanna og reyndi að hoppa jafnfætis án þess að missa köngulinn og það tókst alla leið út að brunninum. Þar datt hann og Helmi fór aftur til konunnar.

- Mamma reyndi nú að taka dropa en ég kom ekki út, sagði hún og raulaði eitthvað sem hún hafði sjálf búið til eins og gömul kona sem hrærir í fatalit og veltir því fyrir sér hvort liturinn verði jafn. Konan barmaði sér á ný.

- Átta börn hef ég fætt Taavi og aldrei hef ég tekið neina dropa. Og flest fær maður að heyra úr barnsmunni. Ó, ó, aumingja Taavi og aumingja ég og aumingja börnin, veslings varnarlausu börnin.

- Ef ég hefði ekki komið væri búið að borga kúna, reyndi Helmi að halda áfram en konan barmaði sér bara yfir sínum eigin sorgum. Helmi hafði svo oft heyrt talað um kúna sem ætti að borga og alla þá skelfilegu ógæfu sem hún hefði haft í för með sér þegar hún kom til sögunnar, að hún festi ekki lengur hugann við það, ekki lengur eða ekki ennþá. Það var bara sumt fólk sem gjarnan vildi hlusta á það og þegar það hafði hlustað núgu lengi fékk hún stundum hveitibrauðsneið eða sykurmola. En þessi kona hafði ekki svo mikið sem hnýti með sér, hún var leiðinleg kona sem sneri höfðinu undan og snökkti í hálfum hljóðum.

(54-6)