Maðurinn er alltaf einn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1950
Flokkur: 

Úr Maðurinn er alltaf einn:

EINN MORGUNN
                                                               
                                          Róm 7.-9.-1948

Þennan morgun hafði hann farið í kirkjuna Santa Maria Maggiore til að sjá hinar frægu mósaikmyndir þar. Hann skoðaði þær um stund, svo fór hann að hugsa um kaþólsku kirkjuna og dulspeki hennar. Fjöldi ungmeyja úr félagi kaþólskrar æsku var í kirkjunni einkum kringum styttu af páfa nokkrum og þær kepptust við að snerta spenntar greipar hinnar biðjandi páfastyttu eins og það myndi fylla þær heilögum anda, þær voru á svipinn eins og frumstæðir skurðgoðadýrkandi villimenn í iðrum ókunnra landa. Hann sá þær án þess að hugsa um þær fyrr en seinna þegar hann var að ganga um götuna einn. Hann fór út úr kirkjunni.
Þegar hann kom á pallinn mikla fyrir utan stórar og breiðar kirkjudyrnar sá hann gamla konu sitja skammt frá innganginum í hið jarðneska skrauthýsi guðsins, titrandi eins og veikbyggt tré í áköfum stormi. Hún hristist öll í krampakenndum rykkjum sem voru svo ofsalegir að þegar hann virti fyrir sér veikbyggðan horaðan líkama hennar sem sýndist vart hafa hold en aðeins þunnan, þurran og harðan belg strengdan yfir beinin undraðist hann stórlega að hún skyldi geta tekið svona ofsalega rykki, skolfið svona mikið. Hún hélt höndunum klaufalega fram fyrir sig eins og hún héldi á einhverju dýrmætu í þeim sem hún óttaðist að missa og brjóta en vissi ekki hvernig hún átti að losna við það úr höndum sér. Tinnudökk augun ranghvolfdust skynjunarlaus og firrt innihaldi af offylli þjáningar og augasteinninn var eins og dökk hringlaga málmþynna fljótandi á vatnsstraumi sem rann í hring: Munnur hennar var opinn og slefan rann niður á snjáðan skítugan svartleitan kjól hennar. Yfir henni stóð fátæklega búin kona sem þurrkaði hana miskunnarsöm, sterk í svipnum eins og kærleikur sá einn er sem á rætur í reynslu af þjáningum og sársauka í sálinni.
Augu hans voru fjötruð við þessa sýn sem fyllti hann sársauka og hryllingi, fangelsaði hann, krossfesti sál hans við sig. Hann stóð þarna um stund lamaður fangi gripinn inn í þjáningu tveggja kvenna, annarrar sem þjáðist svo að hún fann ekki lengur til titrandi slefandi ranghvolfandi augum, hinnar sem þekkti þjáninguna svo sjálf að hún líknaði án hugsanlegs endurgjalds betlikonu, þurrkaði með eigin vasaklút ógeðslega slefu hinnar skjálftalostnu.
Loks gat hann slitið sig burt með átaki eins og maður slíti taug í sér, hlekk sem fjötrar mann og fór burt, gekk um göturnar einn gripinn út úr meðvitundarleysi fjöldans, dreginn út úr honum og horfandi nú á hann framandi ekki dæmandi ekki fyrirlítandi ekki hugsandi neitt sérstakt bara horfandi og finnandi í æðum sér blóð hans unz hann fann dofa læðast inn í skynjun sína á ný eins og slakni á þöndum streng og hljómur hans líðandi í geiminn ennþá ekki þagnaður ekki dáinn en að hverfa deyja, strengurinn slakur þögull . . .
Hann gekk fram hjá fólkinu á Via Veneto sem situr alltaf á gangstéttarveitingarstöðunum innantómt að horfa á sama ekki neitt með sama óbrigðula sljóa svip sem segir ekki neitt . . .

(s. 35 - 36)