Maður dagsins

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Úr Maður dagsins:

Hann situr í búningsklefanum og veit ekki hvernig hann á að vera.
 - Þetta getur ekki verið satt, Bárður Valdimarsson. Þig hlýtur að vera að dreyma!
 Hann þreifar óstyrkri hendi um gullsleginn verðlaunapening sem hangir um háls hans í bláum borða og finnur að hann er ekki að dreyma. Svitadroparnir á enninu, gljáfægður verðlaunapeningurinn og Sigurbergur Þorgrímsson, þjálfari ÍKV, sem gengur um gólf fyrir framan hann eru til vitnis um að þetta er allt blákaldur veruleiki.
 Sigurbergur er í uppnámi. Hann er búinn að bægja frá öllu þessu fólki sem hefur streymt að með útréttar hendur og hamingjuóskir á vörunum. Hann er búinn að ganga um gólf góða stund án þess að mæla orð frá vörum. 
 Loks fá tilfinningar hans útrás:
 - Íslandsmet, Bárður, Íslandsmet! Þetta var stórkostlegt hjá þér. Það varð allt vitlaust í síðasta stökkinu. Þú áttir allan völlinn. Fannstu það ekki?
 Jú. Bárður fann það.
 - Þú átt eftir að gera stórkostlega hluti. Ég veit það. Ég finn það á mér. Þú átt eftir að komast langt.
 Sigurbergur Þorgrímsson byrjar aftur að ganga um gólf og allt í einu er hann farinn að hlæja. Hann byrjar í niðurbældu, allt að því ógreinilegu flissi sem magnast síðan upp í stórkarlalegar hlátursrokur. Bárður hefur aldrei séð þessa hlið á þjálfara sínum áður.
 - Þetta er alveg æðisgengið, segir Sigurbergur með tárin í augunum. Alveg æðisgengið!
 Og til þess að gefa þessum orðum sínum enn meiri áhersluþunga stangar hann höfðinu í vegginn. Svo hættir hann þessu skyndilega, horfir á Bárð, strýkur tárin úr augunum og segir klökkum rómi:
 - Þú ert stórkostlegur, Bárður. Þú ert maður dagsins!

(s. 7-8)