Ljósa

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Um bókina:

Ljósa elst upp seint á nítjándu öld undir hvelfdum jökli með víðsýni yfir sjó og sanda. Hana dreymir um framtíð þar sem hamingja ríkir og sólin skín. En veruleikinn ætlar henni annað; þrátt fyrir góð efni og ástríka fjölskyldu vofir yfir henni ógn sem gefur engin grið.


Úr Ljósu

- Hvernig geturðu komið svona fram við hana mömmu? held ég lafmóð áfram.
- Og hvernig ert þú farin að tala við hann pápa þinn gamla?
- Eins og hann á skilið og ég hefði átt að gera fyrir langalöngu, svara ég og berst við grátinn. Finn að mér er að byrja að renna reiðin en langar að bæta við að þetta geti ekki haldið svona áfram. Megi ekki halda svona áfram.
Pápi svarar engu. Ég sé hvað hann er lotlegur þegar hann snýr sér undan og bograr yfir meðalatöskunni. Axlirnar á honum kippast til. Á sömu stundu verður mér hugsað til Einars. Ekki hefði ég viljað vera án hans fyrir nokkuð sem í boði væri. Ég doka við, á báðum áttum, fer svo steinþegjandi og loka á eftir mér. Nokkru seinna leggur pápi á hest og ríður af stað. Mér líður illa en reyni að einbeita mér við saumaskapinn.
Hann kemur heim snemma kvölds. Ég fer út á hlaðið og tek utan um hálsinn á honum. Hann sprettir af klárnum, klappar honum og sleppir. Svo leitar hann eftir hendinni á mér og við styðjum hvort annað inn í bæ án þess að segja orð.
Vigfús er búinn að biðja mín. Hann hefur oft gefið í skyn að hann vilji ganga að eiga mig en ég hef ekki gefið honum undir fótinn með neitt. Við erum búin að þekkjast lengi, samt vefst þetta fyrir mér og ég bið um frest.
Tilhugsunin um Svein lætur mig ekki í friði. Það er langt síðan ég fékk bréfið. Síðan hef ég ekkert frétt. Hann kæmi ekki aftur hingað en gæti hafa verið í Reykjavík hjá lækni. Er hann kannski orðinn fullfrískur? Af hverju hefur hann þá ekki samband? Stendur við gefið loforð og sækir mig.

(bls. 85-86)