Ljónið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2018
Flokkur: 

um bókina

Ljónið er fyrsta bók í nýjum þríleik, hörkuspennandi ungmennasaga sem gerist í samtímanum en teygir anga sína aftur til ógnvekjandi atburða í fortíðinni. Síðari bækurnar tvær eru Nornin og Skógurinn.

Kría er að byrja í MR. Þar þekkir hún engan og enginn veit um það sem gerðist á Akureyri. Hún hefur litlar væntingar en kynnist Elísabetu, og þrátt fyrir strangt nám er menntaskólalífið frábært.

Þegar Elísabet finnur gamalt skrín í földum skáp fara þær Kría að rannsaka undarlegt mál stúlku sem hvarf sporlaust fyrir 79 árum. Kría hittir líka hinn dularfulla Davíð sem kemur og fer eins og kötturinn. Brátt kemur svo í ljós að hvarf stúlkunnar gæti haft óvænta tengingu við líf Kríu.

úr bókinni

"Ég er glöð að þú komst aftur. Í kvöld," hvíslaði hún á milli kossa.

"Ég vildi ekki láta þig bíða."

"Hvar varstu eiginlega?"

Hann horfði á hana. Það var eitthvað við svipinn á honum sem varð til þess að það fór hrollur um Kríu. Það var eins og hann væri að reikna út hversu mikið hann ætti að segja henni - eða versu lítið.

"Ég skulda þér leyndarmál, manstu það?" sagði hann.

Kría var ekki búin að gleyma því.

"Stærsta leyndarmálið," áréttaði hún.

Hann kinkaði kolli.

"Stærsta leyndarmálið mitt." 

Hann leit yfir tjörnina og dró djúpt andann.

"Ég er ekki frjáls," sagði hann.

"Hvað meinarðu?"

"Ég er ekki ... minn eigin herra."

Hún hristi höfuðið.

"Ég skil ekki. Hvernig geturðu ekki verið frjáls?"

Hún hafði heyrt af því að fangar fengju stundum að vera í opnum fangelsum, en þá hlutu þeir að þurfa að vera heima á nóttunni. Og hann var ekki fangi, var það nokkuð?

"Ég þarf að vinna af mér skuld. Ég er ..."

Hann þagnaði, eins og til að finna réttu orðin."

"Þetta eru eins konar fjötrar," sagði hann.

"Skuldafjötrar?"

"Já."

"En þú verðu reinhvern tímann frjáls? Ég meina, þú getur borgað þessa skuld?"

"Ég vona það."

"En þú ert ekki viss?"

Hann brosti. En hún sá sorgina í augunum.

"Maður á aldrei neitt nema vonina, Kría."

Hún hrukkaði ennið. Hún hafði ekki hugmynd um hvað hann var að fara.

(s. 265-266)