Ljómi

Höfundur: 
Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997

Um þýðinguna

Skáldsagan Skimmer eftir Göran Tunström, í þýðingu Þórarins Eldjárn.

Úr Ljóma

Það var á geðdeildinni í Borgarnesi sem pabbi ákvað að fara í forsetaframboð. Við sátum í setustofunni, í frumskógi grænna jurta, slydda dundi á náttsvörtum rúðum, úr eldhúsinu barst glamur í hnífapörum og leirtaui, aríur risu úr einmana börkum til þess eins að deyja strax út. Pabbi tók sér stöðu framan við stóra fiskabúrið:
-Í öllu er fólgin þekking. Það sem maður veit eitthvað um er til. Það sem maður hefur séð, það sést. Veistu eitthvað um þessa fiska?
-Nei, sagði ég án þess að hlusta vandlega.
-Þetta er ferskvatnsfiskabúr. Hér getur að líta nokkra tannkarpa sem fæða lifandi afkvæmi, meðal annars af tegundinni guppy, sem svo er nefnd eftir presti nokkrum á Trinidad, R.J.L. Guppy, sem lést 1916. Hann sendi British Museum fyrsta eintakið sem lýst var. Fiskur þessi nefnist einnig milljónafiskur, enda lifir hann, býst ég við, í stórum torfum. Hann nærist á skordýralirfum og hrygnan gýtur fimmtán til fjörutíu seiðum á tuttugu og fjögurrra daga fresti. Afar vinsæll fiskur, sem eigendur fiskabúra rækta gjarnan. Í mörgum löndum eru til guppy-samtök sem standa fyrir sýningum þar sem fiskarnir eru metnir jafnt eftir innlendum sem alþjóðlegum stöðlum. Stundum gengur þessi ræktun ekki vel, oft tekst ekki að fá þá til að fjölga sér, til að mynda af þeirri ástæðu að hængar með stóra ugga ná ekki hrygnunum, eða af því að æxlunarfærin hafa stækkað svo mjög að þau nýtast ekki. Og líttu á þennan bláa fisk í saltvatnsbúrinu. Það er jómfrúrfiskur - eða munkfiskur, spyrðu mig ekki af hverju hann er kallaður þetta, hann lifir í sambýli við sæfífla, faðirinn gætir eggjanna, alveg eins og ég gæti þín, það gerist ekki nema út úr algjörri neyð að makarnir sjái báðir um þá vinnu því vinna er það vissulega.

s. 127.