Ljóðtímaleit

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Úr Ljóðtímaleit

Ljóðtímaleit

I

Enn á ný
snemma morguns

þessi tími
fyrir tímann

Örskotsstundin
þegar tíminn
er nýfæddur

Stundin þegar allt er ólært
ekkert ómögulegt
stuttur ó hve stuttur
tími
brotabrot úr augnabliki
á hverjum morgni
hverjum nýfæddum morgni
Opin síða
Líkami sem skynjar
Ljóðtími

II

Hann líður ekki

Starfar óumbeðinn
Snertir án fyrirvara

Ljóðtíminn kemur
þegar hann kemur
Hlýðir hvorki skipunum
né skipulagi

Byggir hús
sem er undarlega samsett
innangengt milli herbergja
sem ekkert sameinar
annað en ljóðtíminn

Enginn veit
hvað það er margar hæðir
hvað það er stórt að gólffleti

Þú ert bara staddur
í þeirri vistarveru
þar sem þú ert
á þeirri stundu
þegar hann kemur

III

Þó svo marmaraþögnin ríki
í garði og trjám
sem gleymt hafa laufi
og fuglum

Þó svo gleymskan
flytji stöðugt burt
húsgögn minninganna

Birtist að lokum
enn og aftur
ný dagsbrún
Eldforna
síunga nýjung:
Logandi skrift
á opna síðu

Að nýju hafin
ný leit að ljómandi augnablikum