Ljóðlínuskip

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Ljóðlínuskipi:

Tvígengivél

Þónokkur hestöfl hafið
Tvígengivél sem aldrei kyrrist
Að og frá
Hefst og hnígur
Öldurnar eru alltaf samar
og jafnar en alltaf samt
að ummyndast
Ýmist langdregin hrygla
eða kveinandi seiður
harmonikku
sem tunglið spilar á

Virðist aldrei geta hætt
þessi öndunargeggjun
Að og frá
Hefjast hníga
Sundur saman
Hún virðist einföld
tvígengivélin
Samt er hún óendanlega
fjölbreytileg

Við sjáum öldurnar hekla
hvíta bekki á vindstrokinn flöt
Sjáum skýin reyna að spegla sig
í öldunum systrum sínum
Sjáum hreyfingar
mjúkar hreyfingar
mittis og mjaðma
magadansmeyjar
á ströndinni
Sjáum horfum
sjáum

Allt nema
Hreyfikjarnann sjálfan
Eldinn