Ljóð vega menn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1980
Flokkur: 

Úr Ljóð vega menn:

Á hringvegi ljóðsins

I

Skrepptu með mér í ferð
út á hringveg ljóðsins
Burtu héðan já burtu langt
frá nötrandi einsemd nístingskuldans
á berangri höfuðborgarleiksviðsins
þessu splundraða smáborgaravíti

Ég skal fara um þig orðum
en umfram allt burtu héðan
úr helvíti neysluskyldunnar
sljóleika margtuggunnar
eitri dagblaðasúpunnar

Já komum í ferðalag út á hringveg ljóðsins
Burtu frá feitri mærð hinna efalausu
Síbylju hinna orðlötu
Undirferli hinna nefndasjúku
sjálfkúguðu og sjálflygnu kúgara

Burtu héðan strax og langt
út á hringveg ljóðsins
Brjótum jafnóðum allar brýr
skiljum við jökulsárnar dyggilega hættunni búnar
Reikum saman um ljóðvegina
leitum og það sem við finnum
er okkar fundur en ekki
fyrirframgefinn sannleikur hinna áhættusnauðu

Burtu nú héðan strax og langt!
Frá síbylju háskalausrar málamyndabaráttu
Frá síbylju óumbreytileikans pempíuglaða
Frá síbylju öryggislæstu sannleikskommóðunnar

Út á ljóðvegina röltum
allt er að veði lagt
eignir og vit og áttir
ráð og ræna

En mundu að það sem við finnum
er okkar fundur