Litlu greyin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Myndir: Gunnar Karlsson.

Úr Litlu greyjunum:

Maðurinn læddist að hverjum glugganum eftir annan og gægðist út.
Ég sé ömmu þína hvergi, sagði hann.
En ef þú sérð hana, þá skaltu fela þig, sagði Trausti og horfði áhyggjufullur framan í manninn.
Hann lét augun hvarfla um stofuna.
Geturðu ekki tekið soldið til hjá þér? Ef amma kemur verður hún alveg vitlaus þegar hún sér allt draslið hérna.
Maðurinn leit líka í kringum sig og Trausta fannst hann einhvern veginn þreyttur. Svo hló hann lágt.
Hún drifi sig kannski bara í uppvaskið, sagði hann. Það væri þá ekki verra að fá hana hingað.
Heyrðu, sagði Trausti, nú verð ég að fara. Mamma og Tinna og Torfhildur eru í lauginni. Þær mega ekki vita hvar ég er.
Spurði enginn hver hefði sett plásturinn á þig? spurði maðurinn.
Jú, allir, sagði Trausti.
Og hvað sagðir þú?
Ég sagði bara draugur, sagði Trausti hreykinn.
Þú ert frábær, sagði maðurinn. Hvað heitirðu annars?
Trausti. Trausti Grímsson. En þú?
Höskuldur, sagði maðurinn. Þá ertu ekki draugur, sagði Trausti og hló. Enginn einasti draugur heitir svona asnalegu nafni.
Finnst þér það asnalegt? spurði maðurinn og glotti.
Ja-há. Það er alveg eins og þröskuldur. Trausti skellihló.
Jæja, bless, sagði hann svo. En passaðu þig á henni Torfhildi ömmu.

(s. 57)

Þegar þau voru að borða opnaði Ása útvarpið og í fréttunum var sagt frá leitinni að ömmu.
Þau klöppuðu saman lófunum.
Svo kom önnur frétt. Ekkert hafði spurst til fangans sem braust út af Litla-Hrauni fyrir tveimur vikum. Lögreglan biður alla sem verða varir við hann að láta samstundis vita. Þulurinn sagði að þetta væri ungur maður, sautján ára gamall og alls ekki hættulegur. Hann væri líklega klæddur grárri peysu og brúnum buxum og hann væri með sítt, svart hár.
Veslingurinn, sagði Ása.
Hver? spurði Trausti.
Þetta strákgrey. Ósköp hlýtur honum að líða illa að vera einhvers staðar í felum í heilar tvær vikur.
Er hann í felum? spurði Trausti. Hvar er hann í felum?
Það veit auðvitað enginn, sagði Torfhildur. Annars væri búið að finna hann.
Ég þekki bara einn sem er í felum, hugsaði Trausti. Hann á gráa peysu. Og hann er með sítt, svart hár. Skrýtið.
Já, en hann er í svörtum buxum! sagði hann stundarhátt. Hann áttaði sig ekki á því að hann hefði hugsað upphátt.
Torfhildur horfði á bróður sinn. Þetta barn var ekki eins og annað fólk. Af hverju var hann að segja þetta? Og allt í einu laust niður í huga hennar að peysan, sem fannst hjá ömmu, hafði sannarlega verið grá.
Allt þetta draugatal í Trausta. Og peysan horfin. Hann sagðist hafa skilað henni. Og hvaðan kom lurkurinn? Henni fannst allt hringsnúast í höfðinu á sér.

(s. 103)