Litlu dauðarnir

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Um Litlu dauðana

Kristófer Sveinbjörnsson virðist lifa hinu fullkomna lífi. Hann er í öruggri vinnu, kvæntur konu af góðum ættum og saman eiga þau heilbrigðan dreng. En ekki er allt sem sýnist. Daginn sem hann missir vinnuna byrjar veröldin bókstaflega að molna undan fótum hans, litlar lygar verða að stórum vandamálum og einfaldar áætlanir breytast í ógnvænlega martröð sem engan endi ætlar að taka. Í örvæntingu sinni flýr Kristófer með fjölskylduna út á land en hann getur hvorki flúið sjálfan sig né fortíðina – farangurinn er lítið annað en svik, leyndarmál og lygar. Hvað gerðist í febrúar 2007?

Úr Litlu dauðunum

Kristófer opnar geymsluna og kveikir ljósið. Hún er full af gömlu dóti en honum tekst að tylla kassanum upp á efstu hilluna, við hliðina á veiðihjólinu sínu og fluguboxinu. Flotlínan á hjólinu er eflaust orðin stirð en varla ónýt, hann hefur enn ekki bleytt í henni. Enda á hann ekki stöng eins og er. Á hillunni fyrir neðan eru nokkur myndaalbúm. Hann tekur eitt þeirra fram og opnar það.

Suðurgatan. Stúdentagarðarnir. Fyrsta árið þeirra saman. Námslán, basl og góðar minningar.

Án þess hvorki að vera hvattur til þess né hafa beinlínis löngun eða metnað í þá áttina fetaði Kristófer í fótspor föður síns, Sveinbjörns Einarssonar, sem var endurskoðandi hjá Sjóvá, og fór í viðskiptafræðina. Faðir hans lét sér fátt um finnast. Mánuði eftir að Kristófer útskrifaðist svipti Sveinbjörn sig lífi. Um haustið skráði Kristófer sig aftur í háskólann í stað þess að leita sér að vinnu. Hann flutti inn til ömmu sinnar og hóf nám í bókmenntafræði og í fyrsta skipti á ævinni fannst honum hann vera að gera eitthvað rétt.

Margrét Elsa var þá á þriðja ári í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Leiðir þeirra lágu saman í aukakúrsum í bókmenntum og frumspeki. Í Margréti fann Kristófer þá ást og umhyggju sem hann hafði farið á mis við svo lengi í lífinu – nokkurs konar kjölfestu í lífsins ólgusjó. Í honum fann hún sálufélaga og vin, viðkvæman fagurfræðing sem var fullkomin andstæða föður hennar. Hæstaréttarlögfræðingurinn Matthías B. Benediktz var ekki aðeins ráðríkur, tilætlunarsamur og andlega kæfandi heldur einnig feðraveldið holdi klætt.

Kristófer flettir albúminu, dreyminn á svip. Litla leiguíbúðin, svo full af myndum, póstkortum og smáhlutum að það sást varla í veggina. listaverkabækur, blýantsteikningar og sótsvarta mokkakannan. Síkvöld úti á svölum. Helgarfríið í sumarhúsi. Lautarferð í Hljómskálagarðinum. Rauðvín, ostar og gamlar djassplötur – Get Off My Cloud, 19th Nervous Breakdown, Satisfaction og Paint it Black: „I see a read door and I want it painted black …“ Gamlar franskar bíómyndir á VHS – Betty Blue, Amelie og Delicatessen. Þau lásu Ilminn, Meistarann og Margarítu og Milan Kundera eins og hann lagði sig.

Hömlulaust kynlíf. Koddahjal langt fram á nótt – heimspeki, listir, bókmenntir, lágmenning og klám.

(30-1)