Lillilalli og vatnið góða

Staður: 
Brekku í Dýrafirði
Ár: 
2010
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Margt snýst í höfðinu á Lillalalla. Til sögu koma Ítalir sem vilja flytja út besta vatn Íslands og láta fljótustu unglingana auglýsa vatnið. Lillilalli, Dysta fóstursystir og pólski Jacek ætla að sigra og fá Ítalina til að taka „lifandi vatnið“ hennar Sölu gömlu í dalnum. Tekst þetta? Og hvað með Badda hrekkjusvín?


Úr Lillilalli og vatnið góða:

Þau nálgast nú Ófæruklettinn og vindurinn byrjar að hvína um bátinn. Svo er hann allt í einu kominn út í hávaðarokið og Pabbi stýrir honum beint upp í. Hann fer að höggva í krappa vindbáruna, og Lillalalla fer enn að liða illa. Hann tekur samt eftir því að báran er lítil, rokið ber niður sjóinn og rífur hann upp í rokspildur svo erfitt er að sjá út. En Pabbi horfir bara á GPS-inn og heldur strikinu, en hann þarf meira og meira að vanda sig við stýrið. Hann fer að tauta ljót orð milli tannanna. Dysta spyr hvað sé að en hann segir að rokið vilji stöðugt þvinga stefnið út til hliðar og leggja bátinn á hliðina, það sé hættulegt. Hann verði helst að halda honum sem jafnast beint upp í vindstrenginn, það sé bara erfitt því stundum slái fyrir út frá klettadröngunum í hlíðinni. Lillilalli tekur eftir því að bátnum miðar hægar en áður, honum sýnist næstum ekkert miða, þegar hann sér yfir í hlíðina fyrir rokinu. Og hvað ef vélin bilar nú allt í einu? Munu þau ekki bara farast þá? En svo hættir hann að hafa áhyggjur af því, hættir að heyra sönginn í rokinu nema eins og í fjarlægð, og tal þeirra feðginanna aðeins sem uml í fjarska. Sjóveikin hellist yfir hann og hann leggst út fyrir þröskuldinn og spýr, bara ælir öllu, kaffinu, kakóinu, brauðinu og morgunmatnum, sem nú er orðinn að súru sulli, já síðast bara gori og slími. Hann tæmist og jafnar sig dálítið, heyrir pabba spyrja hvort hann sé veikur, vinur. Já, auðvitað er hann veikur og búinn að gefast upp. Dysta krýpur hjá honum, heldur yfir um hann og strýkur framan úr honum með pappír. Ósigur hans er algjör og engu skiptir þótt Pabbi segi að þetta sé nú ekki langt, þau verði komin eftir hálftíma.

(bls. 18)