Líkið í rauða bílnum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986
Flokkur: 

Glæpasaga. Bókin kom út í franskri þýðingu 1997 og hlaut Les Boréales de Normandie verðlaunin sem besta þýdda glæpasagan frá Norðurlöndunum það ár.

Úr Líkinu í rauða bílnum:

Hvað varðaði Halldór Ingimarsson virtist auðsýnt að hann hafði flúið staðinn einhverra hluta vegna. Tvennt kom til greina: annað hvort eitthvað óhreint í pokahorninu, og til þess bentu meðal annars víxlarnir sem Björn hafði sýnt mér, ellegar flótti hans var einföld afleiðing af því að hann var hrædddur. Kannski hafði hann óttast um líf sitt og limi. Víst hljómaði það lygilega, en þó var ekki hægt að útiloka slíkt. Gat hann hafa komist á snoðir um eitthvað meira og merkilegra en sögusagnir ættaðar frá andstæðingum Björns? Hafði hann komist yfir einhverja hluti, einhver gögn, sem gátu komið Birni eða kumpánum hans í klípu?
 Svör við þessum spurningum hafði ég ekki, og fengi sjálfsagt ekki nema með því að hafa upp á Halldóri sjálfum. Allt virtist benda til þess að hann hefði flogið utan til Danmerkum. En hvar hafði hann skilið bifreiðina eftir? Kannski hjá vinum eða ættingjum í Reykjavík? Keflavíkurflugvelli? Eða ekið henni á einhvern afvikinn stað til geymslu. Og af hverju var ekki lýst eftir bílnum? Höfðu Axel og börn hans engan áhuga á að endurheimta svo til nýjan vagn? Og fyrst þau höfðu ekki áhuga á því, hlaut þá ekki að liggja að baki einhver veigamikil ástæða? Gat verið að þeim væri ekkert í mun að upplýsa að Halldór hefði leikið á þau og svikið fé út úr fjölskyldunni? Óttuðust þau að það yrði túlkað sem veikleikamerki í plássinu? Hitt kom til greina að þau kærðu sig ekkert um, jafnvel óttuðust, að lögreglan færi að hnýsast í þeirra mál. Fyrirspurn til lögreglunnar með tilheyrandi eftirlýsingum og yfirheyrslum gat dregið einhver þau mál fram í dagsljósið sem þau vildu fremur að lægju í þagnargildi.
 Ég hlýt að hafa dottað í baðinu; ég hrökk upp við að einhver barði á baðherbergisdyrnar.
 
(s. 118)