Lífsreglur Ólafíu Arndísar: sjálfstyrkingarblogg

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2013
Flokkur: 


Myndskreytingar: Margrét Einarsdóttir Laxness.Úr bókinni:Ótrúleg örlög Ólafíu Arndísar og Dalai Lama10.06Hei! Þetta er fyrsta bloggfærslan mín. Ég kann sko ekkert að blogga, hef aldrei gert það áður en mamma fékk þessa hugmynd og bjó bloggsíðuna til án þess að spyrja mig. Hún ákvað líka titilinn: Lífsreglur Ólafíu Arndísar – sjálfstyrkingarblogg. Ertu ekki að grínast!!!Ég held að það sé best að útskýra þetta aðeins svo ég verði ekki nýjasta grínið á öllum samskiptamiðlum heimsins. Þannig er að ég var prettuð til að skrá mig á námskeið á sveitasetri við rætur eins af hættulegustu eldfjöllum á Íslandi. Jamm, ég er ekki að ýkja. Ég vildi að þetta væri allt saman lélegur brandari en svo er ekki. Ég er reyndar ekki ein og yfirgefin hérna. Ég er með mömmu á sérstöku námskeiði sem er ætlað foreldrum og börnum. Svokallað fjölskyldunámskeið. Og af hverju skyldum við nú vera hérna, ég og mamma? Jú, sjáið til, eftir ferminguna mína í vor rifumst við mamma mjög mikið, nánast alla daga. Henni fannst ég vera vanþakklát, löt, dramatísk, hanga of mikið í tölvunni, fara og lítið út, tala of mikið, vinna of lítið, vera áhugalaus eða þá með óeðlilega mikinn áhuga á einhverju. Þessi kona!!!Svo fannst henni alveg ótækt að ég eignaðist ekki bestu vini lífs míns í Hveragerði. Þegar ég benti henni á að það væri nú kannski henni sjálfri að kenna fyrir að vera alltaf að flytja á nýja staði þá brjálaðist hún alveg og sagði að lífið snerist ekki bara um mig og mínar þarfir. Svona rifumst við daginn út og inn. Ef ég kom inn í eldhús, settist við eldhúsborðið og sagði ekkert var hún alveg viss um að það væri eitthvað að mér. Ef ég kom inn, settist og fór að tala um, ja, til dæmis hvað maturinn væri vondur eða eitthvað svoleiðis, þá fullyrti mamma að ég væri sjálfhverf. Sjálfhverf … hvað þýðir það eiginlega? Er þetta orð örugglega til í íslensku? Maður mátti bara ekkert gera. Einu sinni eða tvisvar tók ég svona æðiskast, þið vitið, þar sem ég grenjuöskraði og sparkaði í hurðina á herberginu mínu. Allt af því að mamma pirrað mig svo rosalega að mig langaði til að hún sæi mjög vel hvað ég var pirruð. Eitt kvöldið heyrði ég mömmu og pabba hvíslast á frammi í eldhúsi. Mamma hélt ég væri að dópa því ekkert annað gæti skýrt aðra eins hegðun. Pabbi hélt ekki, sérstaklega þar sem ég átti enga vini, kom heim strax eftir skóla, hékk svo allan daginn í tölvunni eða með Kristjáni og vinum hans. Hann sagðist ekki sjá hvenær ég ætti að hafa tíma til að dópa. Klikkaða fólk!!! Ég myndi aldrei nota eiturlyf, aldrei! Ég er ekki heimsk, sko. Ég var bara búin að fá nóg af öllum í fjölskyldunni, minnst Kristjáni samt. Hann er alveg ágætur og er eiginlega næstbesti vinur minn, á eftir Tótu.Dag einn kom mamma ofurspennt heim úr búðinni. Hún hafði rekist á auglýsingu um námskeið sem bar yfirskriftina Bætt samskipti á heimilinu.(s. 11-13)